30. apr. 2013

Græna gangan 1. maí

Fimmtán náttúru- og umhverfisverndarfélög taka þátt í kröfugöngu verkalýðsfélaganna á morgun til að veita þeim stuðning í baráttunni. Gengið verður undir grænum fánum, aftast í göngunni, m.a. til að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og til að minna á að þingið hefur ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar.

Í nýliðinni kosningabaráttu voru umhverfismál lítið rædd þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni lítinn stuðning við áframhaldandi uppbyggingu virkjana og stóriðju. Þannig reyndust 44% aðspurðra andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% fylgjandi í nýlegri könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Landvernd. Í sömu könnun sögðust 51,3% vera andvíg því að fleiri álver yrðu reist hér á landi en 30,9% voru því hlynnt. Þessi andstaða hefur aukist talsvert frá árinu 2008, en þá sögðust 42% andvíg frekari uppbyggingu álvera en 38% fylgjandi.

Á því kjörtímabili sem nú er að hefjast verða teknar ákvarðanir um mörg verðmæt náttúrusvæði, t.d. Mývatn og Reykjanesskaga. Landskipulagsstefna sem gerir ráð fyrir háspennulínu og virkjunum á hálendinu mun koma til afgreiðslu hjá Alþingi og fyrir liggur krafa um stórar háspennulínur m.a. á Reykjanesskaga, í Skagafirði og víðar á Norðurlandi. Krafa grænu göngunnar er að náttúru Íslands verði hlíft.

Heyrst hefur í örfáum gagnrýnisröddum vegna grænu göngunnar. Þannig sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í viðtali við Fréttablaðið að honum fyndist að „umhverfisverndarsinnar, fyrirtækin í landinu og aðrir hagsmunahópar eigi að leyfa okkur að hafa þennan dag um málefni launafólks." Vilhjálmur Birgisson, leiðtogi lýðræðisarms verkalýðshreyfingarinnar, tók annan og eðlilegri pól í hæðina: ,,Það er einfaldlega þannig að að sjálfsögðu má hver sem er krefjast hvers sem er hvenær sem er og því er erfitt fyrir mann að gagnrýna slíkt. Vissulega er þetta alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins og hefur verið haldinn hátíðlegur um alllanga hríð, en ég undirstrika að ég geri ekki athugasemd við það ef einhverjir hópar vilja koma sínum málefnum á framfæri þá nýti þeir tækifæri til slíks, hvar og hvenær sem er. Þannig virkar lýðræðið."

Í gærkvöldi voru skráðar tvær færslur á facebook-síðu grænu göngunnar sem glöddu mig mjög og sannfærðu mig um að viðhorf Gylfa Arnbjörnssonar er ekki ríkjandi innan verkalýðshreyfingarinnar. Þannig skrifaði Salóme B. Guðmundsdóttir: ,,Verð ein af göngustjórum 1. maí göngu verkalýðsfélaganna. Verð þessvegna bara með ykkur í anda. Nú sem aldrei fyrr er þörf á að standa vörð um náttúru landsins." Og Einar Ólafsson skrifaði: ,,Ég mun ganga á undan með minn gamla rauða fána. Rauði fáninn hefur svo sem ekki alltaf verið umhverfisvænn gegnum söguna, en gamli rauði fáninn minn unir sér vel í félagsskap þess græna. Reyndar mætti verkalýðshreyfingin taka sér Landvernd til fyrirmyndar og koma sér upp fánaverksmiðju!"

Sjáumst á Snorrabraut við Hlemm á morgun kl. 13.