26. apr. 2013

Fjögurra ára óréttlæti?

Formaður Framsóknarflokksins sagði í leiðtogakappræðum Stöðvar 2 í gær að íslensk heimili hefðu beðið eftir réttlæti í fjögur og hálft ár. Það er merkileg túlkun á Íslandssögunni - að óréttlætið sé á barnsaldri.

Njörður P. Njarðvík aldursgreinir íslenskt óréttlæti með öðrum hætti í bókinni Spegill þjóðar. Þar fjallar hann m.a. um stjórnarmyndun árið 1950 sem átti eftir að reynast fjölskyldu hans örlagarík:

,,Fyrsta verk hinnar nýju stjórnar var að fella gengi íslensku krónunnar um 42,6% og við það hækkaði erlendur gjaldeyrir um 74,3%. Í greinargerð með lagafrumvarpinu kemur skýrt fram, að gengislækkunin var miðuð við þarfir útgerðarmanna. En það dugði þeim þó ekki. Rétt fyrir jólaleyfi Alþingis sama ár voru samþykkt lög um ,,Skuldaskilasjóð útvegsmanna". Þau leiddu til þess að afskrifuð voru 98% skuldanna. 98! Faðir minn fékk með öðrum orðum 2 prósent af útistandandi skuldum. ... Þetta var okkar hrun. ... Við bættist svo, að bankastjórinn sem faðir minn hafði löngum skipt við, var nýlega látinn úr bráðri botnlangabólgu og annar tekinn við. Hann var framsóknarmaður af verstu gerð og gekk fram með miklu offorsi. ... Bankastjórinn nýi gekk miskunnarlaust að föður mínum, enda var hann ekki í aðstöðu til neinna samninga. Bankinn hirti eignir okkar fyrir smánarverð, og bankastjórinn kom netaverkstæðinu í hendur flokksbróður sín samkvæmt siðvenju íslenskra stjórnmálamanna."

Óréttlætið árið 2013 er greinilega það sama og óréttlætið árið 1950. Bið íslenskra heimila eftir réttlæti er þannig ekki talin í árum eins og formaður Framsóknarflokksins gerði, heldur áratugum. Ástæðan fyrir þessari löngu bið er einföld - það er einhver sem græðir á óréttlætinu, hvort sem það birtist okkur í einokun, innflutningshöftum, gengisfellingum, verðtryggingu eða skuldaánauð. Einu sinni voru það útgerðarmenn og Sambandið sem græddu. Núna eru það fjármálamenn og vogunarsjóðir.

Að mínu mati er bara ein leið til þess að stytta bið íslenskra heimila eftir réttlæti - við þurfum að slíta í sundur óréttlætið og valdið. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur fjallað nokkuð um þetta, m.a. í bókinni Sjálfstæðisflokkurinn. Átök og uppgjör. Þar skrifar hann á einum stað að þjóðin sé ekki bara jafn vel í stakk búin til að taka ákvarðanir eins og kjörnir fulltrúar, hún sé þeim fremri: ,,Hún hefur það umfram hina kjörnu fulltrúa að sérhagsmunahópar eiga ekki jafn auðvelt með að ná til þjóðarinnar allrar eins og til einstakra þingmanna eða sveitarstjórnarmanna til að hafa áhrif á þá."

Ég hef enn ekki ákveðið hvaða lista ég kýs á morgun. En það verður í öllu falli framboð þess fólks sem ég tel líklegast til að stuðla að og mæla fyrir beinu lýðræði.