12. mar. 2013

Lygin um umhverfisvænu orkuna

Við erum montin af orkunni okkar. Stjórnmálamenn og orkugeirinn segja hana umhverfisvæna, vistvæna, sjálfbæra og græna. Þetta fá allir að heyra sem hingað koma og þetta er það sem fulltrúar þjóðarinnar monta sig af á fundum erlendis. Umhverfisvæn orka er því orðin stór hluti af ímynd lands og þjóðar.

En það mun komast upp um okkur. Rétt eins og útlendingar komust að því að við erum engin undrabörn í rekstri fjármálafyrirtækja þá munu þeir komast að því að orkan okkar er hvorki umhverfisvæn né græn.

Nú er komið í ljós að við fórnuðum lífríki Lagarfljóts fyrir Kárahnjúkavirkjun. Þingvallavatn er mengað vegna affallsvatns sem rennur í það frá Nesjallavirkjun. Á Suðurnesjum stendur til að leggja pípu frá virkjuninni í Svartsengi yfir verndað hraun til að losa mengað vatn út í sjó. Í nýlegri skýrslu frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis segir að vaxandi styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu sé áhyggjuefni. Og sérfræðingar hafa varað við að tilvonandi jarðhitavirkjun Landsvirkjunar í Bjarnarflagi kunni að skaða lífríki Mývatns.

Sæmilega heiðarlegt fólk getur ekki haldið því fram að orkuframleiðsla hér á landi sé umhverfisvæn eða græn. Hluti orkunnar, þ.e. vatnsorkan, er það sem kalla má endurnýjanleg (e. renewable), en hún er hvorki umhverfisvæn né græn.