23. mar. 2013

Bjarnarflagsvirkjun, lýðræðið og unga fólkið

,,Unga fólkið þarf að vita hvað við upplifðum og þegar framtíð skal byggja að fortíð skal hyggja. Og það er næsta mál í uppsiglingu hérna - Bjarnarflagsvirkjun." Þetta sagði Finnbogi Stefánsson, einn þeirra sem sprengdu stíflu Laxárvirkjunar árið 1970, í nýlegu viðtali við fréttastofu RÚV.

Landsvirkjun ætlar sér í Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn með tíu ára gamalt umhverfismat upp á vasann. Það gerir fyrirtækið þrátt fyrir að Umhverfisstofnun hafi mælt með því að matið verði að hluta til unnið að nýju vegna þekkingar og reynslu sem hefur skapast á nýtingu jarðhitasvæða á þessum tíu árum. Og þrátt fyrir að sama stofnun segi vísbendingar uppi um að vistfræði Mývatns sé að breytast og þess vegna gæti verið ástæða til að tilnefna Mývatn-Laxár svæðið á válista Ramsar samningsins. Og þrátt fyrir að einn helsti sérfræðingur um lífríki Mývatns hafi lýst yfir áhyggjum af áhrifum Bjarnarflagsvirkjunar á undirstöðu lífríkis Mývatns.

Bjarnarflagsvirkjun skal rísa, enda á virkjunin að skaffa raforku til ríkisstyrktrar stóriðju á Bakka, þ.e. 45MW af þeim 50MW sem þarf í fyrsta áfanga verksmiðjunnar. Og héðan í frá mun ekkert koma í veg fyrir að virkjunin rísi, ekki nema að hið óvænta gerist og stjórn Landsvirkjunar eða sveitarstjórn Skútustaðahrepps snúist hugur. Á því eru þó hverfandi líkur.

Almenningur hefur sem fyrr ekkert um náttúruperlur sínar að segja, þær eru í umsjá orkufyrirtækja og sveitarstjórna. Unga fólkið sem Finnbogi Stefánsson talar um hefur þannig engin tækifæri til að hafa áhrif á það hvort virkjað verði við Mývatn, ekki nema með aðgerðum eins og þeim sem Finnbogi sjálfur beitti við Laxárvirkjun árið 1970. Lýðræðið hefur ekki tekið meiri framförum en svo á undanförnum 43 árum. Enda vita forsvarsmenn orkuiðnaðarins og fulltrúar þeirra í stjórnkerfinu að þeirra hagsmunir og skoðanir ungs fólks fara ekki saman. Þannig telja um 85% ungra kjósenda mjög eða frekar mikilvægt að ganga harðar fram í að vernda umhverfið. Þetta kemur fram í nýlegri könnun Fréttablaðsins. Og málefnið er næst mikilvægast að mati þessa kjósendahóps, einungis lausn skuldavanda almennings er honum hugleiknari. Umhverfismálin fá einkunnina 4,4 á skalanum 1 til 5, þar sem 5 er mjög mikilvægt en 1 mjög lítilvægt. Skuldavandinn fær 4,5. Reyndar koma sömu áherslur fram þegar allir kjósendur eru spurðir. Þá fær skuldavandinn sömu einkunn en umhverfismálin 4,0 og skora jafn hátt og afnám verðtryggingar í 2.-3. sæti.

Það er því ekki að ástæðulausu sem nú er barist af fullri hörku gegn öllum tillögum um beint lýðræði.