18. feb. 2013

Atvinnuvegaráðherra styrkir stóriðjuna

Atvinnuvegaráðherra og formaður Vinstri-grænna hefur látið að kröfum sveitarstjórnarmanna á Húsavík um að almenningur greiði fyrir uppbyggingu stóriðju á Bakka. Samkomulag þess efnis var undirritað á föstudag, en það var á liðnu sumri sem sveitarstjórnarmennirnir kröfðust tveggja milljarða króna fyrir stóriðjuhöfn og tilheyrandi vegagerð á Bakka.

Á heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins segir fátt um samkomulagið, einungis að það fjalli um uppbyggingu kísilvers á Bakka og nauðsynlegar aðgerðir svo hægt sé að ráðast í uppbyggingu stóriðju á svæðinu. Í þeim tilgangi muni atvinnuvegaráðherra leggja fram tvö frumvörp á Alþingi, annað um skattaafslætti til handa eiganda kísilversins en hitt um greiðslur úr ríkissjóði fyrir hafnar- og vegagerð sem á að þjónusta kísilverið.

Ég óskaði strax eftir að fá að sjá þetta samkomulag en var synjað um það af hálfu ráðuneytisins og var sagt að bíða þar til ráðuneytið myndi opinbera þessi opinberu gögn. Fjölmiðlar hafa sagt fátt um málið umfram það sem kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins. Að vísu rakst ég á eftirfarandi klausu á vef Akureyri-vikublaðs: ,,Ríkið og sveitarfélagið Norðurþing veita ýmsar ívilnanir vegna framkvæmdanna, svo sem niðurfellingu á fasteignagjöldum, hafnargjöldum og afslátt af sköttum."

Þetta síðasttalda virðist hefðbundið þegar um stóriðjufyrirtæki er að ræða, sama hversu grænar ríkisstjórnir eru við völd. Hitt er öllu alvarlegra, þ.e. að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna hafi tekið þá stefnumarkandi ákvörðun að taka aftur upp ríkismeðgjöf með stóriðjuhöfnum, en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks aflagði þann ósið með breytingum á hafnalögum árið 2003. Eftir þær breytingar hafa notendur nýrra hafna staðið undir kostnaði við þær með hafnagjöldum.

Ætli ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna sér að taka aftur uppi beina ríkisstyrki til stóriðju með þessum hætti þá er alls óvíst hvar sú vegferð endar. Þannig hafa þingmenn stjórnarandstöðu t.d. lagt fram frumvarp á Alþingi um að fé renni úr almannsjóðum til stóriðjuhafnar í Helguvík á Suðurnesjum. Varla getur ríkisstjórnin neitað að styrkja Helguvíkurhöfn ef hún setur fordæmi um ríkisstyrk á Bakka? Það hljóta að gilda sömu reglur í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi.

Atvinnuvegaráðherra sagði á fréttamannafundi á laugardag að hann ætlaði sér að vera á þingi þegar stóriðjuver risi á Bakka. Þannig lýsti formaður Vinstri-grænna því yfir að stóriðja á Bakka hefði verið meðal hans helstu baráttumála í stjórnmálum. Enda var bæði Þeistareykjum og Bjarnarflagi við Mývatn fórnað í virkjanaflokk í rammaáætlun til að þessi stóriðjudraumur rættist. Og nú bítur atvinnuvegaráðherra höfuðið af skömminni með því að leggja til að stóriðja á Bakka fái styrk af almannafé.