4. jan. 2013

Umhverfisfréttir ársins 2012

Gleðilegt ár lesendur góðir og takk fyrir það liðna. Ég renndi yfir umhverfisfréttir ársins 2012 í fljótheitum og að mínum dómi bar þetta hæst:

1. Þingvallavatn er hitamengað og þess vegna hefur þörungamagn vaxið og tærleiki minnkað. Sérstöðu Þingvallavatns er þannig ógnað. Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki efni á að byggja kæliturn við Nesjavallavirkjun til að sporna gegn hitamenguninni.

2. Tillaga að rammaáætlun var lögð fram á Alþingi. Orkufyrirtækin töldu of langt gengið í verndarátt en ferðaþjónustan og náttúruverndarfélög töldu of mörg svæði tekin undir virkjanir. Reykjanesskaga var t.d. lýst sem ruslatunnu rammaáætlunar.

3. Tvö stór fyrirtæki tóku mikilvæg skref í átt til umhverfisvænni starfsemi á árinu. Icelandair hélt upp á 75 ára afmæli félagsins í sumar með því að samþykkja stefnumótun um umhverfisstefnu og Landspítalinn kynnti eigin umhverfisstefnu í nóvember. Í yfirlýsingu Icelandair sagði að það væri sýn félagsins að náttúran væri helsta aðdráttarafl ferðamanna sem koma til landsins og verndunar- og endurnýjunarstarf gagnvart náttúru og auðlindum landsins væri forsenda fyrir vexti og viðgangi Icelandair Group.

4. Landsvirkjun hóf framkvæmdir við jarðhitavirkjun við Mývatn. Landvernd og Fuglavernd óskuðu eftir rannsókn Ramsar samningsins á mögulegum áhrifum virkjunarinnar á lífríki vatnsins.

5. Í október var birt svört skýrsla um rekstur og virkjanastefnu Orkuveitu Reykjavíkur, m.a. var arðsemi af raforkusölu til stóriðju talin óásættanleg. McKinsey & Company birti svo skýrslu í lok sama mánaðar sem staðfesti litla arðsemi orkufyrirtækjanna af stóriðjustefnunni: ,,Capital productivity in the energy sector is the lowest across all sectors of the Icelandic economy. With 25-30% of the capital stock directly or indirectly invested in the energy sector, this is a serious matter for resolution."

6. Alþingi samþykkti nokkur framfaramál, t.d. ályktun um græna hagkerfið, frumvarp um upplýsingarétt um umhverfismál og frumvarp um hert viðurlög við akstri utan vega.

7. Skipulagsstofnun lagði fram drög að landssskipulagsstefnu sem gerir ráð fyrir mannvirkjabeltum yfir hálendið með háspennulínum, uppbyggðum vegum og virkjunum. Einungis 28,6% eru fylgjandi háspennulínu yfir Sprengisand samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Landvernd í október.

8. Margar fréttir bárust af átaki ríkis og borgar í almenningssamgöngum og í uppbyggingu innviða fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

9. Mælingar staðfestu vaxandi flúormengun frá iðjuverum á Grundartanga og frá álveri Alcoa í Reyðarfirði.

10. Í desember kom fram að Orkustofnun, fyrir hönd ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar, hefði ákveðið að veita leyfi til olíuleitar og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Á sama tíma sátu fulltrúar sömu ríkisstjórnar á samningafundum í Doha um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir hörmulegar afleiðingar loftslagsbreytinga.

11. Andstaða við nýjar stóriðjulínur fór vaxandi. Þannig lýstu um sjötíu landeigendur yfir andstöðu við Blöndulínu 3 og sögðust ekki ætla að heimila lagningu loftlína á sínu landi. Hópur landeiganda á Reykjanesskaga ætlar ekki að samþykkja suðvesturlínu.

12. Niðurstaða rannsóknar sem birt var í alþjóðlegu vísindatímariti sýndi fram á tengsl brennisteinsmengunar frá jarðvarmavirkjunum og astmalyfjanotkun. Fimm til tíu prósent meira er notað af astmalyfjum þegar brennisteinsvetnismengun mælist mikil á höfuðborgarsvæðinu.