23. jan. 2013

Efnahagsleg áhrif olíuvinnslu

Það kemur mér verulega á óvart að einungis 80% landsmanna séu fylgjandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Einungis helmingur segist mjög fylgjandi olíuvinnslunni en 28% frekar fylgjandi. Einn af hverjum tíu reynist henni andvígir. Þetta er merkileg niðurstaða miðað við allan áróðurinn fyrir olíuvinnslunni, litla og einhæfa stjórnmálaumræðu og algjöran skort á umfjöllun um möguleg neikvæð umhverfis- og efnahagsáhrif olíuvinnslu.

Í fyrsta lagi hef ég t.d. hvergi rekist á umfjöllun um möguleg neikvæð efnahagsleg áhrif olíuvinnslu. Ekki nema örfáar línur í skýrslu iðnaðarráðuneytisins frá 2007 sem eru ekki beint uppörvandi: ,,Innra jafnvægi gæti raskast með auknum verðbólguþrýstingi og möguleika á ruðningsáhrifum í gegnum sterkara gengi krónunnar." Í raun ætti þjóðin að forðast olíuvinnslu eins og heitan eldinn á meðan húsnæðislánin eru verðtryggð. Við megum ekki við því að hella olíu á verðbólgubálið. Það er jafn gáfulegt fyrir verðtryggt verðbólgusamfélag að hefja olíuvinnslu eins og það er fyrir alkann að reka brugghús. En við ræðum þetta ekki einu sinni - látum bara ljúga því að okkur að við séum öll á leið til money heaven.

Í öðru lagi hef ég lítið heyrt fjallað um þau fyrirtæki og einstaklinga sem hafa nú öðlast einkarétt á að vinna olíu í íslenskri lögsögu. Þar eru kunnugleg nöfn á ferð, t.d. Olís sem er m.a. í eigu útgerðarfélagsins Samherja og Kaupfélags Skagfirðinga. Og þarna eru fleiri á ferð sem þekkja vel til auðlindamála, t.d. fyrirtækið Mannvit undir stjórn Eyjólfs Árna Rafnssonar. Sá hefur m.a. rekið fyrirtæki sem höfðu miklar tekjur af stóriðjuuppbyggingu á Austurlandi og hann hefur setið í stjórn VKG Invest með Finni Ingólfssyni. VKG Invest var einn af hluthöfum í hinu alræmda Reykjavík Energy Invest (REI) á sínum tíma og skildi síðar eftir sig þriggja milljarða króna skuld en engar eignir. Þannig að nú er olíuauðlindin komin í hendurnar á „the usual suspects", mönnum sem hafa langa reynslu af því að hirða arðinn af sjávar- og orkuauðlindum þjóðarinnar. Hefur einhver stjórnmálamaður eða fjölmiðlamaður spurt þeirrar spurningar hvort olíuleitin verði fjármögnuð með eigin fé þessara manna eða hvort þeir fari nú brosandi í bankann með eitt stykki olíuleitarleyfi til að gíra sig upp, þ.e. taki lán út á leyfin? Erum við kannski enn eina ferðina að einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið?

Í þriðja lagi hef ég hvergi séð fjallað um það hvaða áhrif mengunarslys gæti haft. Þó er vitað að með þekktri tækni verður varla ráðið við mikinn olíuleka. Aðstæður á Drekasvæðinu eru þannig, t.d. er sjórinn það kaldur að efni sem notuð eru til að brjóta niður olíu þegar slys verða virka seint og illa. Nú eru bandarísk stjórnvöld að endurskoða leyfi sem Shell hefur fyrir olíuleit fyrir norðan Alaska vegna mikils fjölda óhappa, nú síðast á nýársnótt þegar olíuborpallur slitnaði aftan úr togskipi og rak á land. Hér á landi komast stjórnmálamenn og stofnanir upp með einfalt loforð um að allir ætli að vanda sig og þess vegna muni þetta bara reddast. Og hefur einhver fjölmiðill eða stjórnmálamaður spurt um áhrif olíuleka á fiskistofna í íslenskri lögsögu? Ég man t.d. ekki eftir að hafa rekist á þessa staðhæfingu úr umsögn sjávarútvegsráðuneytisins frá 2007 í opinberri umræðu: ,,Svifdýr á Drekasvæðinu eru mikilvæg fæða okkar stærstu nytjastofna (loðna, síld). Hætta er á því að við olíuvinnslu berist klórlífræn mengunarefni út í sjóinn og inn í fæðukeðjuna og hafi varanleg áhrif á viðkomu uppsjávarfiskanna."

Og í fjórða lagi er það þetta smáræði með loftslagsmálin. Nú stefnir í að loftslagið hlýnu um 5-6 °C fyrir næstu aldamót. Olíu- og gasvinnsla á Norðurheimskautinu mun leiða til þess að 520 tonn af koltvísýringi munu bætast við andrúmsloftið á hverju ári. Það er í raun bara aukin kolavinnsla í Ástralíu og Kína sem munu hafa meiri neikvæð áhrif á loftslagið en olíu- og gasvinnsla á Norðurheimskautinu.

Ef við værum búin að ræða allt þetta sem ég nefni hér, eins og upplýst lýðræðissamfélög eiga að gera, þá er ég viss um að stuðningur við olíuleit væri talsvert minni en hann er í dag.