18. des. 2012

Verjum við loftslagið eða bókhaldið?

Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lauk nýverið í Doha án teljandi árangurs þó að málið sé orðið æði brýnt. Loftslagið hefur hitnað um 0,8°C frá upphafi iðnbyltingar og Alþjóðbankinn gaf nýverið út skýrslu þar sem varað er við því að það kunni að hitna um 4°C til viðbótar fyrir árið 2060 verði ekki dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir einföldu og ógnvekjandi reikningsdæmi. Við getum bætt 565 gígatonnum af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið fyrir miðja þessa öld og samt haldið hlýnun andrúmsloftsins undir tveimur gráðum, en það eru talin mörk mjög hættulegrar hlýnunar. Spár gera hins vegar ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda aukist um 3% á ári og miðað við þær forsendur þá munu þessi 565 gígatonn bætast við andrúmsloftið á einungis sextán árum. Tveggja gráðu markið er því villuljós. Fatih Birol, yfirhagfræðingur Alþjóða orkumálastofnunarinnar, sagði nýverið flest benda til að hækkun hitastigs á þessari öld verði um 6°C!

Ef við borum eftir og brennum allt það jarðefnaeldsneyti sem fundist hefur í jarðskorpunni þá losna 2.795 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Það er fimm sinnum meira en vísindamenn telja óhætt að losa til að halda hlýnun loftslagsins undir áðurnefndum tveimur gráðum. Við stöndum því frammi fyrir þeirri staðreynd að olíuríki og orkufyrirtæki þurfa að skilja um 80% af þekktum birgðum af olíu, gasi og kolum eftir í jörðinni til að forða mannkyni frá ömurlegum afleiðingum öfgakenndra loftslagshlýnunar.

Vandinn er hins vegar sá að þó að jarðefnaeldsneytið sé enn djúpt í jörðu þá hefur það nú þegar ratað inn í bókhald ríkja og orkufyrirtækja. Væntar tekjur af þessu jarðefnaeldsneyti hafa því þegar haft áhrif á ríkisfjárlög og hlutabréfaverð orkufyrirtækja og verið notaðar sem veð fyrir lánum. Það hefði því gríðarleg áhrif á hagkerfi heimsins ef ákvörðun yrði tekin um að vinna ekki þetta jarðefnaeldsneyti úr jörðu. John Fullerton, fyrrverandi yfirmaður JP Morgan, hefur reiknað út að þessar birgðir jarðefnaeldsneytis sem losa munu 2.795 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum séu metnar á 27 billjónir Bandaríkjadala (e. trillion). Ef mark yrði tekið á viðvörunum vísindamanna og 80% jarðefnaeldsneytis yrðu skilin eftir í jörðinni óunnin þá jafngilti það því að 20 billjónir dala yrðu afskrifaðar í bókhaldi orkufyrirtækja og ríkja. Heimsbyggðin stendur því frammi fyrir því að velja á milli þess að vernda loftslagið eða bókhald olíu-, gas- og kolaframleiðenda.

Íslensk stjórnvöld hafa valið bókhaldið fram yfir loftslagið og hafa hleypt af stað olíuleit- og vinnslu á Drekasvæðinu. Ísland hafði tækifæri til að gerast brautryðjandi í loftslagsvernd í heiminum með því að fresta olíuleit með hagsmuni komandi kynslóða í huga. Það hefði verið markvert framlag Íslands til að hægja á aukningu losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu auk þess sem slík ákvörðun hefði vakið heimsathygli, eflt til muna umhverfisvæna ímynd Íslands og verið öðrum þjóðum fyrirmynd. En ríkisstjórnin valdi hlutverk bóndans Pákoms í sögu Leo Tolstoj. Sá er aldrei ánægður með hlutskipti sitt og vill alltaf meira fyrir sig og sína. Einn daginn er honum boðið fyrir lítið fé allt það land sem hann getur gengið umhverfis á einum degi. Kaupunum fylgja aðeins þau skilyrði að Pákom verður að vera kominn aftur á upphafsstaðinn fyrir sólsetur. Græðgin leiðir Pákom alltaf lengra og þegar það rennur upp fyrir honum að hann nái vart á upphafsstað fyrir sólarlag tekur hann á slíkan sprett að hann hnígur að lokum örendur til jarðar.

Guðni Elísson rifjar þessa sögu upp í grein um loftslagsmál í TMM árið 2011 og heimfærir hana upp á veruleika alþjóðlegra loftslagsmála: ,,Við sannfærum sjálf okkur um að enn sé tími til stefnu, að enn sé hægt að snúa aftur á upphafsstaðinn þótt við höldum aðeins lengra. Allt verður að lokum í lagi og á meðan ekkert er gert eignumst við enn meira land. Þó verður með hverju árinu sem líður enn erfiðara að ná aftur á hæðina okkar í tíma. Fæst þeirra sem lögðu í gönguna um sólarupprás hafa þó enn svo mikið sem litið um öxl. Þau vilja púla aðeins lengur, hamast aðeins meira, ganga aðeins nær sjálfum sér. Aðeins þannig verður raunverulega reynt á mörkin. Aðeins þannig köstum við ekki því lífi á glæ sem lifa verður til fulls. Hér er þó einn munur á. Pákom galt fyrir græði sína með lífinu. Gröfin sem við gröfum er handa afkomendum okkar."