5. des. 2012

Stóriðjulínur borgaðar úr þínum vasa

Myndin sýnir flutningslínur raforku og er fengin af landsnet.is. Grænu línurnar eru stóriðjulínur. Þeim vill Landsnet nú fjölga verulega.
Í sumar skrifaði ég pistil sem ég nefndi ,,Almenningur greiðir meðlag með stóriðju". Þar segir meðal annars: „Landsnet stefnir nú að því að byggja upp 220kv hringtengingu um landið og þvert yfir hálendið. Ljóst er að þessi uppbygging er gerð fyrir stóriðjuna, ekki almenning, enda einungis spáð um 2% aukningu í raforkunotkun til almennra nota til 2030. En stóriðjan fær ekki sendan reikninginn. Þú borgar."

Þetta hefur nú verið staðfest með fréttum af hækkun Landsnets á dreifikostnaði. Hækkunin var tilkynnt þannig að hún myndi falla bæði á almenning og stóriðju, en annað kom fljótlega í ljós. Stjórnarformaður HS Orku sagði t.d. í viðtali við Morgunblaðið 29. nóvember: ,,Orkufyrirtækin geta ekki velt hækkuninni út í verðlagið til stórnotenda enda er verðið bundið í samninga. Þetta eru einfaldlega auknar álögur á orkufyrirtækin. Eina leið orkufyrirtækjanna til þess að ná hækkuninni til baka er að hækka verð á seldri raforku á smásölumarkaði til annarra fyrirtækja og heimila." Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sagði í viðtali við RÚV sama dag að verðhækkanir til stóriðju myndu bitna alfarið á Orkuveitunni og þar af leiðandi á almenningi: „Til lengri tíma þá þýðir tekjumissir eða útgjaldaauki fyrir Orkuveituna auðvitað að við verðum að við verðum að bæta það upp annars staðar, með þá enn auknum niðurskurði hjá okkur eða hækkun til almennings, nú eða þá hvort tveggja sem er líklegasta niðurstaðan."

Það var ágætt að fá þetta staðfest. Almenningur greiðir sem sagt fyrir uppbyggingu stóriðju úr eigin vasa.

Fram kom í nýlegri skýrslu íslandsbanka að Landsnet áætlar að fjárfesta fyrir um 75 milljarða króna til ársins 2020 í tengslum við nýjar virkjanir og þróun flutningskerfisins. Forstjóri Landsnets sagði í viðtölum að hækkun gjaldskrár gerði fyrirtækið betur í stakk búið til að mæta fjárfestingum og aðstoðarforstjóri Landsnets orðaði það svo í viðtali við Fréttablaðið að hækkunin leiddi til þess að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt, í samræmi við þarfir samfélagsins. Þetta er sérkennileg yfirlýsing í ljósi þess að samkvæmt gögnum orkuspárnefndar er ekki gert ráð fyrir aukningu almennrar raforkunotkunar í dreifbýli næstu árin.

Þær framkvæmdir sem Landsnet fyrirhugar í tengslum við stóriðjuuppbyggingu eru tilfærslu Hamraneslínu og bygging Suðvesturlínu, ný lína frá Hellisheiðarvirkjun að Grundartanga og áfram að Blöndu, Akureyrar, Kröflu, Húsavíkur og Kárahnjúkavirkjunar. Þá stefnir fyrirtækið einnig að línu yfir hálendið um Sprengisand. Flutningsgeta þessara stóriðjulína er á bilinu 550MW til 1.100MW. Aflþörf Akureyrar er u.þ.b. 20MW og höfuðborgarsvæðisins 200MW. Fyrirhugaðar raflínur verða því einungis reistar til að sinna þörf stóriðju. Samt kallar forstjóri Landsnets þetta óhjákvæmilegar fjárfestingar.

Það er ekki annað að sjá en að ákvörðun Landsnets um að senda almenningi reikninginn fyrir stóriðjulínum sé ólögleg, enda eiga slíkar framkvæmdir að standa undir sér með þeim tekjum sem þær skapa. Þannig segir t.d. í 12. gr. raforkulaga: ,,Við setningu tekjumarka skal taka tillit til kostnaðar vegna reksturs og fjárfestinga vegna flutnings til dreifiveitna annars vegar og til stórnotenda hins vegar."

Andri Snær Magnason tjáði sig um þessar verðhækkanir í viðtali við Smuguna og sagði þetta vera risastórt hagsmunamál sem stjórnmálamenn ættu að ræða opinskátt. Ég auglýsi hér með eftir stjórnmálamanni sem er til í að taka upp hanskann fyrir almenning í þessu máli.