12. des. 2012

Stöðnun í kolli Alþingismanna

Nú er unnið að byggingu 90 MW jarðhitavirkjunar á Þeistareykjum og 45-90 MW virkjunar við Mývatn. Landsvirkjun segist geta aukið framleiðslu sína um einhver 200 MW vegna aukins rennslis í ám vegna loftslagsbreytinga. Þá er umframorka í kerfinu um þessar stundir líklega um 100 MW. Samanlagt gera þetta á milli 400-500 MW. Það er ekki lítil orka. Hún myndi duga fyrir rekstri um 20 gagnavera eða þriggja kísilkúrverksmiðja eða fjögurra járnblendiverksmiðja. Svo er Búðarhálsvirkjun að komast í rekstur í lok næsta árs og stærsti jarðbor landsins var gangsettur nýverið til að vinna að orkuöflun á Reykjanesskaga - ruslatunnu rammaáætlunar.

Samt héldu þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ræður á Alþingi í nótt um virkjanastopp ríkisstjórnarinnar og stöðnun í atvinnumálum.

Eina stöðnunin sem ég verð vitni að er í kolli umræddra þingmanna. Þeir virðast hafa mokað sínar pólitísku skotgrafir fyrir einhverjum misserum eða árum síðan og harðneita að koma upp úr þeim þó að þeir hafi unnið stríðið. Þeir fengu Mývatn, nær öll jarðhitasvæði Norðausturlands, Reykjanesskagann eins og hann leggur sig og þeir þurfa ekki að bíða nema í ár eftir að fá að virkja neðri hluta Þjórsár. Í næsta áfanga rammaáætlunar geta þeir svo lagt undir sig hálendið, náttúru Skaftárhrepps og það sem eftir er af jökulánum. Stríðsmenn stóriðjustefnunnar unnu orrustuna um rammaáætlun.

En í aðdraganda kosninga ákveða þeir að sitja sem fastast í skotgröfunum og tala um virkjanastopp. Enda virðast þeir eiga fá önnur erindi við kjósendur en að flytja þeim áratuga gamlar virkjana- og stóriðjuræður. Það er einföld átakapólitík sem þeir kunna best.