27. nóv. 2012

Vönduð virkjanaumfjöllun Fréttablaðsins

Fréttablaðið birti um helgina vandaða umfjöllun um fyrirhugaða Bjarnarflagsvirkjun Landsvirkjunar við Mývatn. Það var þrennt í greininni sem vekur sérstaka athygli.

Í fyrsta lagi svaraði Landsvirkjun ekki spurningum blaðamanna en sendi þeim þess í stað greinargerð sem unnin var fyrir Alþingi í haust. Spurningar blaðamenna fjölluðu t.d. um kostnað við mengunarvarnir og hugsanlega skaðabótaskyldu. Það kemur því ekki á óvart að einungis 35% aðspurðra í könnun Capacent Gallup telja Landsvirkjun opið og gagnsætt fyrirtæki .

Í öðru lagi koma fram upplýsingar um mikla hagsmuni sveitarstjórnarmanna í Skútustaðahreppi, þess sveitarfélags sem veitir Landsvirkjun leyfi til framkvæmda. Tveir sveitarstjórnarmenn af fimm eru starfsmenn Landsvirkjunar og sveitarstjórinn er eigandi lands í Reykjahlíð og mun því fá tekjur í eigin vasa verði virkjunin reist. Þetta er enn ein áminningin um það að fámenn sveitarfélög ráða illa við það alræðisvald í skipulagsmálum sem þau hafa fengið á undanförnum árum.

Í þriðja lagi tjáir heilbrigðisfulltrúi Norðurlands eystra sig mjög opinskátt um virkjanaáformin og möguleg umhverfisáhrif þeirra. Hann segir að vísbendingar hafi kom fram á undanförnum árum um að jarðvarmaorka sé ef til vill ekki eins græn og áður hafi verið talið. Því þurfa að hugsa þetta allt upp á nýtt. Hann segir að tæknin sé ung, athuganir af skornum skammti og bregðast þurfi við með auknum rannsóknum og fyrirbyggjandi aðgerðum. Ekki dugi að ana út í óvissuna. Hann segir sérstakt áhyggjuefni að við mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar og einnig á Suðurnesjum hafi enginn séð fyrir þau vandamál sem siðan hafi komið upp. Þess vegna geri allir sem koma að málinu fyrir hönd opinberra stofnana sér grein fyrir því að við mikinn vanda sé að etja. Þetta eykur með manni von um að stofnanir sem veita leyfi fyrir virkjunum, bæði Heilbrigðiseftirlitið og Orkustofnun, muni sjá til þess að fyllstu varúðar verði gætt við Mývatn.

(Landvernd hefur farið fram á að Landsvirkjun láti vinna nýtt mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn en núgildandi mat er að verða tíu ára gamalt. Þú getur tekið undir þessa kröfu á heimasíðu Landverndar).