15. nóv. 2012

Hagvaxtartrúin og siðaskipti 21. aldar

Á undanförnum árum hefur stjórnmálaumræðan að mestu farið fram á forsendum fortíðarinnar og hagsmunasamtaka hennar. Þeir sem eiga ríkra hagsmuna að gæta hafa fengið að marka hjólförin sem umræðan hefur hjakkað í. Þrátt fyrir að hagstjórnarfyrirkomulag þeirra hafi hrunið þá fer umræðan samt áfram fram á þeirra forsendum. Hagvaxtarumræðan er dæmi um það.

Hagvöxtur virðist áfram ætla að verða sá mælikvarði sem stjórnmálamenn, stofnanir og fjölmiðlar nota á árangur samfélagsins. Samt þekkjum við vel hversu gallaður hann er. Simon Kuznets, höfundur hugtaksins verg landsframleiðsla, varaði sjálfur við slíkum mælikvarða árið 1960: ,,Distinctions must be kept in mind between quantity and quality of growth, between its costs and return, and between the short and the longrun … Goals for ´more´ growth should specify more growth of what and for what“. (Breyting á landsframleiðslu milli ára, mæld í prósentum, kallast hagvöxtur)

Eimiliano Duch, einn virtasti fræðimaður heims á sviði samkeppnisfræða, kom nýverið hingað til lands og sagði þá í viðtali við Fréttablaðið að vandamál Spánar væri ekki síst að alltof mikið hefði verið horft til hagvaxtar á bóluárunum. Stjórnmálamenn hefðu sagt: ,,Sjáið, hagvöxturinn er góður og allir hafa nóg að gera.“ Duch sagði að þannig gæti hagvöxtur ekki bara verið ómarktækur sem mælistika á velgengni hagkerfa, heldur beinlínis hættulegur.

Tim Jackson fjallar um það í bók sinni Prosperity without growth hvernig hagvexti hefur verið haldið uppi undanfarna tvo áratugi með gríðarlegri skuldasöfnun. Afleiðingar þess séu nú að koma fram. Ísland er þar engin undantekning. Á síðustu fjórum árum fóru skuldir hins opinbera úr 700 í 2.100 milljarða, yfirdráttalán heimilanna tvöfölduðust nærri því á síðustu þremur árum og námu 74 milljörðum í apríl og verðtryggð lán heimilanna nálgast nú 700 milljarða en voru 554 árið 2007.

Gagnrýni á hagvöxt er svo sem ekki ný af nálinni. Þannig flutti Robert Kennedy fræga ræðu í mars 1968, skömmu áður en hann var myrtur, þar sem hann sagði: ,,Our gross national product … if we should judge America by that – counts air pollution and cigarette advertising, and ambulances to clear our highways of carnage. It counts special locks for our doors and the jails for those who break theim. It counts the destruction of our redwoods and the loss of our natural wonder in chaotic sprawl. It counts napalm and the cost of a nuclear warhead, and armored cars for police who fight riots in our streets. … Yet the gross national product does not allow for the health of our children, the quality of their education, or the joy of their play. It does not include the beauty of our poetry or the strength of our marriages; the intelligence of our public debate or the integrity of our public officials. It measures neither our wit nor our courage; neither our wisdom nor our learning; neither our compassion nor our devotion to our country; it measures everything, in short, except that which makes life worthwile.“

Og gagnrýni af sama meiði hefur líka heyrst hér á landi. Þannig skrifar Hörður Bergmann í Þjóðráð árið 1999: ,,Rányrkja og ofveiði getur líka talist hagkvæm og haldið hagvexti uppi um skeið! Auðlindarýrnun, náttúruspjöll og annað tjón, sem fylgt getur efnahagsstarfseminni, er ekki í afskriftalið hefðbundinnar þjóðarframleiðslu. Það verður því að taka með fyrirvara endurtekinni hvatningu til þjóðarinnar um að standa sig í hagvaxtarkapphlaupi. Það kann að vera hagkvæmt og hollt að skokka rólega í slíku hlaupi.

Að stjórna hagkerfi eftir hagvaxtarmælingum er eins og að aka bíl með augun eingöngu á hraðamælinum. 2004 – 7,7%. 2005 - 7,1%. 2006 – 4,4%. 2007 – 4,9%. Við enduðum þennan bíltúr á því að fara fram af hengifluginu. Samt er okkur strax aftur orðið starsýnt á hraðamælinn. Þess vegna er mikilvægt að tillögur um útreikning framfarastuðulsins komist sem fyrst til framkvæmda, en stuðulsins er bæði getið í stefnu Alþingis um græna hagkerfið og sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar. Framfarastuðullinn tekur ýmislegt til greina t.d. misskiptingu tekna, kostnað vegna umhverfisspjalla og ósjálfbæra nýtingu auðlinda og leiðréttir hagvaxtarmælingar með tilliti til þessara þátta.

Hagvaxtarhagkerfið er kirkja nútímans og hagfræðingar eru prestar þess. Nú er kominn tími á önnur siðaskipti.