8. nóv. 2012

Fjölmiðlar elta eigin smjörklípu

Umfjöllun um þegjandi samkomulag ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar í virkjanamálum er gott dæmi um það hvernig umræða um mikilvæg mál er afvegaleidd með því að gera aukaatriði að aðalatriði. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var í Kastljósi kvöldsins og tók þátt í að spinna þráðinn.

Þessi umræða hófst þegar fréttastofa Rúv greindi frá því að þingmaður VG hefði sagt að framkvæmdir Landsvirkjunar við Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn væru brot á þegjandi samkomulagi um að orkufyrirtæki í opinberri eigu héldu að sér höndum í virkjanamálum þar til rammaáætlun hefði verið samþykkt á Alþingi.

Eftir þetta hófu fjölmiðlar leit að hinu þegjandi samkomulagi eins og um stórpólitískt mál eða vafasaman gjörning væri að ræða. Forsætisráðherra kannaðist ekki við að hafa gert slíkt samkomulag, formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafði ekki heyrt af slíku samkomulagi og forstjóri Landsvirkjunar ekki heldur.

En þann 18. ágúst 2009 sagði forstjóri Landsvirkjunar í viðtali í Kastljósi: ,,Mér finnst það mjög mikilvægt varðandi virkjunarkosti almennt að það eru raunverulega hlutverk stjórnvalda að ákveða hvar er virkjað. Landsvirkjun þarf að sjálfsögðu að gera rannsóknir og frumvinnu hvar er hagkvæmt að virkja, en síðan er það stjórnvalda helst með langtíma rammaáætlun að - sem sagt ákveða, þá í umboði almennings hvar skal virkja. Síðan er það Landsvirkjun þá á hverjum tímapunkti eða annarra fyrirtækja að virkja þar sem að stjórnvöld vilja virkja. Þannig að - mér finnst það mikilvægt - þetta er í rauninni pólitísk ákvörðun hvar virkjað er en þetta er ekki viðskiptaleg ákvörðun Landsvirkjunar."

Þannig að þetta þegjandi samkomulag sem enginn þorði að kannast við og fjölmiðlar eyddu nokkru púðri í að finna var þá eftir allt saman opinber yfirlýsing forstjóra Landsvirkjunar. Vinnutíma fréttamannanna hefði verið betur varið í að fjalla um aðalatriði málsins, þ.e. möguleg áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á lífríki Mývatns, en að eltast við eigin smjörklípu.