19. nóv. 2012

Financial Times um svartar horfur í álframleiðslu

Þróun álverðs undanfarin fimm ár. Mynd: InfoMine.com.
Nýverið fullyrti ég í grein í Fréttablaðinu að hér á landi yrðu ekki reist fleiri álver. Því til rökstuðnings vitnaði ég m.a. í grein Financial Times frá 7. október sem ber titilinn ,,Aluminium: Shock and ore".

Í greininni er farið yfir erfiða stöðu álframleiðenda, en verð á áli lækkaði um 20% á liðnu ári og um önnur 15% á fyrri hluta þessa árs. Álframleiðendur hafa ekki notið álíka hækkana og hafa t.d. orðið í viðskiptum með kopar og járngrýti vegna aukinna efnahagsumsvifa Kínverja á undanförnum árum. Verðið hefur í raun lítið breyst síðan 1980 (FT miðar við 2.100 dali fyrir tonnið en í dag stendur verðið í 1.922 dölum). Á sama tímabili hefur kopar nær þrefaldast í verði og járngrýti áttfaldast. Af þeim námuafurðum (e: mined commodity) sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgist með hefur ál staðið sig verst á mörkuðum, þ.e. hækkað minnst í verði.

Þróun á álmörkuðum hefur gert það að verkum að samanlagt framleiðsluverðmæti stærstu álframleiðendanna, t.d. Alcoa og Rio Tinto, hefur lækkað úr 200 milljörðum dala fyrir fimm árum síðan í 65 milljarða. Á sama tímabili hefur samanlagður hagnaður fimm stærstu álframleiðendanna lækkað úr 9,4 milljörðum dala í 2,4 milljarða. Nýleg árshlutauppgjör leiða í ljós að fyrirtækin eru nú rekin með tapi. Stjórnendur Rusal sögðu frá því í liðinni viku að álverð samsvaraði nú framleiðslukostnaði.

Álverð hefur lækkað þrátt fyrir mjög aukna eftirspurn eftir áli. Fyrir því eru þrjár ástæður. Í fyrsta lagi efnahagskreppa á Vesturlöndum, í öðru lagi miklar uppsafnaðar álbirgðir og í þriðja lagi gríðarleg framleiðsluaukning í Kína. Kínverjar eru háðir öðrum um marga hluti, þar á meðal kopar og járngrýti og það hefur leitt til verðhækkana á þeim hrávörum. En um álið gilda önnur lögmál. Þannig er Kínverjum að takast á undraskömmum tíma að verða sjálfum sér nægir um ál. Árið 2000 framleiddu þeir einungis 2,8 milljónir tonna en í fyrra framleiddu þeir 17,8 milljónir tonna, eða um 40% heimsframleiðslunnar. Þannig hafa Kínverjar náð markaðsráðandi stöðu og stefna að enn aukinni framleiðslu á sama tíma og aðrir álframleiðendur reyna að draga úr framleiðslu til að stuðla að verðhækkunum. Verksmiðjur sem fyrirhugað er að reisa í Xinjiang-héraði á næstu þremur til fjórum árum gætu aukið ársframleiðslu Kínverja um tíu milljónir tonna. Það er meira en samanlögð núverandi ársframleiðsla álvera í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.

Þetta veldur álframleiðendum á Vesturlöndum miklum vandræðum. Financial Times hefur eftir Marius Kloppers, forstjóra BHP Billiton, stærsta námufélags heims og sjötta stærsta álframleiðanda heims, að honum líki ekki álið. Enda hefur fyrirtækið lýst því yfir að það muni ekki fjárfesta frekar í áliðnaði. Þá er haft eftir Daniel Brebner, sérfræðingi Deutsche Bank í viðskiptum með málma, að enginn iðnaður geti þrifist til langrar framtíðar við slíkar aðstæður. Hann telur að langur tími muni líða áður en birta taki til á álmörkuðum.

Í grein Financial Times er m.a. fjallað um rekstur Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, en fyrirtækið keypti Alcan árið 2007 fyrir rúma 38 milljarða dala. Sú fjárfesting reyndist algjört glapræði, enda hefur álverð lækkað um rúman þriðjung frá kaupunum. Neyddist Rio Tinto þess vegna til að afskrifa 8,9 milljarða dala úr bókum sínum á þessu ári og blaðið fullyrðir að fyrirtækið reyni nú að selja eignir, þar á meðal álver. Forbes greindi nýverið frá því að Rio Tinto hefði lokað álveri á Bretlandseyjum fyrr á þessu ári, sækist eftir að loka öðru í Ástralíu og reyni auk þess að semja um lækkun á orkuverði í Nýja-Sjálandi. Daily Telegraph greindi frá því í október að Rio Tinto ætlaði að fækka starfsfólki í Evrópu um 30% fyrir lok næsta árs.

Þessi staða álframleiðenda hefur mikil áhrif hér á landi. Þannig hefur Rio Tinto nýlega sagt þrettán starfsmönnum fyrirtækisins upp störfum í Straumsvík og hægt hefur verið á framkvæmdum við stækkun álversins. Afleiðingarnar fyrir skuldsett orkufyrirtæki eru líka alvarlegar vegna þess að verð á orku til álvera hér á landi er að stærstum hluta tengt álverði. Það gerir stjórnendum Orkuveitu Reykjavíkur t.d. erfiðara um vik að bjarga rekstri fyrirtækisins, en það á að greiða 25 milljarða króna í afborganir af lánum á næsta ári og síðan á milli sextán til tuttugu milljarða á ári fram til ársins 2018.

Financial Times orðar það svo að samfélög sem reiða sig á álver standi nú berskjölduð frammi fyrir þeirri þróun sem eigi sér stað á álmörkuðum. Slík samfélög kallar höfundur greinarinnar monotown og á þá við bæi og borgir. Það hvarflar líklega ekki að honum að til sé þjóð sem hefur gert sig háða álframleiðendum með því að selja álverum tæp 80% þeirrar orku sem hún framleiðir. Hvað þá að til séu stjórnmálamenn meðal þeirrar þjóðar sem sækjast fast eftir því að hækka þetta hlutfall enn frekar með því að reisa fleiri álver. En á Íslandi eru til stjórnmálamenn sem virðast staðráðnir í að vaða úr einu hruninu í annað.