6. okt. 2012

Landsvirkjun laumast í framkvæmdir við Mývatn

Landsvirkjun hefur laumast til að hefja framkvæmdir við 45-90 MW Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn þó að fyrirtækið hafi ekki orðið sér út um framkvæmdaleyfi, virkjanaleyfi eða rekstrarleyfi og stjórn fyrirtækisins, skipuð af fjármálaráðherra, hafi ekki tekið ákvörðun um að virkjunin verði reist.

En nú eru óafturkræfar framkvæmdir hafnar á grundvelli leyfis sem Landsvirkjun hefur fengið hjá Skútustaðahreppi til ,,landmótunarframkvæmda." Þannig notar opinbert fyrirtæki gloppu í skipulagslögum til að laumast til að hefja framkvæmdir við virkjun sem hefur enn ekki fengið tilskilin leyfi. Og engin ákvörðun liggur fyrir um að eigi að reisa.

Segjum sem svo að fyrirtækið fái ekki öll leyfi fyrir virkjunina. Kannski kemur í ljós að áhrif virkjunarinnar á lífríki Mývatns eða Hveraröndina séu óásættanleg. Hvað gerir Landsvirkjun þá við grunninn sem nú er að verða til? Ætli sveitarfélagið hafi sett einhver skilyrði í landmótunarleyfið um að Landsvirkjun beri að lagfæra svæðið ef virkjanaleyfi fæst ekki? Síðast þegar ég gáði þá var Landsvirkjun ekki svo vel sett fjárhagsleg að hún hefði efni á því að kasta peningum út um gluggann.

Já og svo var það þessi rammaáætlun sem átti víst að samþykkja á Alþingi áður en framkvæmdir við nýjar virkjanir hæfust. Lýðræðið er greinilega of hægfara skepna fyrir Landsvirkjun.
„Landmótunarframkvæmdir“ Landsvirkjunar við Mývatn.