29. okt. 2012

Heilsársvegur um Kjöl og raflínur um Sprengisand

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt áhuga á að heilsársvegur verði lagður um Kjöl. Þeir hafa því lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin kanni þjóðhagslega hagkvæmni slíkrar vegagerðar.

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að nýr Kjalvegur myndi hafa gríðarleg áhrif á ferðaþjónustu, þ.á.m. auka tekjur hennar. Samt hefur stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar ályktað gegn uppbyggðum vegi yfir Kjöl þar sem slík framkvæmd myndi gjörbreyta upplifun ferðamanna. Í ályktun samtakanna segir m.a.: ,,Vegur af þeirri gerð sem hér er rætt um sviptir hálendið sérkennum sínum og þeirri öræfastemningu sem ferðamenn sækjast eftir. Hálendi landsins hefur mikið gildi fyrir þjóðina og með því að leggja uppbyggða samgönguæð í gegnum eitt helsta hálendissvæðið er verið að spilla verulega þeirri upplifun sem menn sækjast eftir."

Ferðaklúbburinn 4x4 er einnig andsnúinn hugmyndum um uppbyggingu Kjalvegar vegna sjónmengunar og hávaðamengunar sem honum fylgja og vegna hættu af vondum veðrum að vetrarlagi. Þá telur félagið að heilsársvegur myndi svipta hálendið sérkennum sínum og þeirri öræfastemningu sem ferðamenn sækjast eftir.

Nýverið var birt fróðleg skýrsla eftir Önnu Dóru Sæþórsdóttur sem hún nefnirFerðamennska á miðhálendi Íslands: Staða og spá um framtíðarhorfur. Þar segir að sérstæð náttúra sé aðal aðdráttarafl landsins, en um 88% erlendra ferðamanna koma til landsins vegna hennar og um 50% koma vegna öræfanna. Slík svæði eru fágæt í heimalöndum flestra þeirra ferðamanna sem fara á hálendið, enda er það sérstaklega mikilvægt fyrir ákveðna markhópa, en um 50,5% Hollendinga, 40,2% Ítala, 39,5% Spánverja, 45,9% Þjóðverja og 45,3% Frakka fara inn á hálendið.

Ferðamenn reynast ánægðastir á þeim stöðum á hálendinu þar sem uppbygging og þjónusta er minnst og þeir eru almennt þeim mun ánægðari sem svæðum hefur verið minna raskað. Aðdráttarafl hálendisins felst því fyrst og fremst í „ósnortnum" víðernum. Þess vegna er kyrrð, frumstæð uppbygging og einfaldleiki hluti af aðdráttaraflinu. Enda reynast ferðamenn á hálendinu almennt ekki hlynntir mannvirkjum þar, að fjallaskálum undanskyldum. Mest reynist andstaðan gegn virkjunum, næst mest gegn bensínstöðvum og hótelum, því næst veitingastöðum og heilsársvegum.

Fram kemur í skýrslunni að eftirspurn eftir náttúruferðamennsku fari sífellt vaxandi. Enda sögðu fulltrúar á fimmta tug ferðaþjónustufyrirtækja í Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi að hálendið sé mjög mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustuna á þessum svæðum og einnig byggja mörg fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu tilveru sína að verulegu leyti á hálendinu. Áframhaldandi vöxtur þessara ferðaþjónustu byggir á óspilltri náttúru - takmarkaðri auðlind sem á stöðugt undir högg að sækja. Fyrir einhverra hluta sakir virðist stór hópur þingmanna ekki geta sýnt þessu skilning og leggur fram tillögur um að ganga sem hraðast á þessa auðlind, hvort sem það er með vegagerð um Kjöl eða virkjunum og raflínum um Sprengisand.