30. sep. 2012

Ríkisstjórn hefnir sín á Ríkisendurskoðun

Nú virðast nokkrir þingmenn Samfylkingar og Vinstri-grænna vinna að því hörðum höndum að grafa undan trúðverðugleika og trausti Ríkisendurskoðunar. Þeir neita að láta stofnunina fá frumvarp um fjáraukalög til umsagnar þar sem þeir telja sig ekki geta reitt sig á Ríkisendurskoðun sem umsagnaraðila. Ástæðan fyrir þessu er sögð sú að Ríkisendurskoðun sé grunuð um að hafa klúðra einu máli! Auðvitað á þingið að rannsaka frammistöðu stofnunarinnar í Skýrr-málinu, en það réttlætir ekki að þingmenn brjóti áralangar hefðir eins og þær að Ríkisendurskoðun fái fjáraukalög til umsagnar.

Það eru fáar opinberar stofnanir eins mikilvægar fyrir almannahag og Ríkisendurskoðun. Eins og segir á heimasíðu hennar þá stuðlar stofnunin að því að stjórnvöld svari fyrir athafnir sínar og athafnaleysi gagnvart þinginu og almenningi. Í þessu hlutverki hefur Ríkisendurskoðun staðið sig vel. Kannski of vel að mati sumra stjórnmálamanna. Sá grunur læðist að mér að það sé skýringin á yfirdrifnum viðbrögðum úr röðum þingmanna Vinstri-grænna og Samfylkingar við Skýrr-málinu.

Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt núverandi þingmeirihluta og ríkisstjórn í fjölda mála. Þannig hefur hún fjallað um yfirtöku ríkisins á Sparisjóði Keflavíkur, Sjóvár-málið, ýmisálitaefni í fjárlögum og lánveitingar ríkisins til gjaldþrota fjármálafyrirtækja, t.d. Askar Capital og Saga Capital. Þá gagnrýndi Ríkisendurskoðun tvo ráðherra ríkisstjórnarinnarfyrir framgöngu þeirra í máli meðferðarheimilisins Árbótar. Nú virðast þingmenn Samfylkingar og Vinstri-grænna telja sig hafa fengið vopn í hendur með Skýrr-málinu og hyggja á hefndir.

Sagt er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt niður Þjóðhagsstofnun vegna þess að niðurstöður hennar voru forystu flokksins ekki að skapi. Nú virðast Samfylking og Vinstri-grænir leika svipaðan leik gagnvart Ríkisendurskoðun, þó ekki sé gengið eins hreint til verks að þessu sinni.