9. sep. 2012

Hægrimenn og stóriðjustefnan


Ég las viðtöl við tvo meinta hægrimenn í Morgunblaðinu í dag, varaformann Sjálfstæðisflokksins og bókaútgefanda. Báðir kvörtuðu sáran undan því að ekki væri nægilega vasklega gengið fram í stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Hér þyrfti að nýta auðlindir landsins af meiri krafti til að skapa störf. Nýr formaður þingflokks Sjálfstæðiflokksins fór með sömu ræðuna í útvarpsviðtali nýverið. Þetta er mjög algengt sjónarmið þeirra sem segjast standa hægra megin í íslenskum stjórnmálum. Það er samt algjörlega órökrétt.

Víða um land stendur fólk nú í því að verja lönd sín gegn eignarnámi fyrir stóriðju. Er það í anda hægri stefnu? Um 80% af raforku sem framleidd er hér á landi fer nú til stóriðju og stærstur hluti þeirrar orku er tengdur söluverði einnar afurðar. Er það í anda ábyrgrar efnahagsstefnu hægri manna að auka þetta hlutfall i 90%? Orkuveita Reykjavíkur er nær gjaldþrota vegna framkvæmda tengdum stóriðjustefnunni og Landsvirkjun er í ruslflokki greiningarfyrirtækjanna. Er það í samræmi við hugmyndir hægri manna um að fara vel með almannafé?

Auðvitað er stóriðjustefna ekki hægri stefna. Fimmtán ára áætlun Landsvirkjunar um að tvöfalda orkuframleiðslu sína er miðstýrður áætlunarbúskapur. Það vill bara þannig til að miðstýrður áætlunarbúskapur aflar atkvæða og stuðnings þeirra sem eiga beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta. En flokkar með áframhaldandi stóriðjustefnu á stefnuskránni eru ekki flokkar einkaframtaksins. Ekki fyrir fimmaura. Ef eitthvað er þá gerir stóriðjustefnan öðrum greinum atvinnulífsins erfiðara um vik að vaxa og dafna.

Það staðfestir afstaða fólks með alvöru reynslu úr atvinnulífinu sem hefur ekki beinna hagsmuna að gæta. Pétur Blöndal, eini maðurinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem hefur leyft sér að efast um stóriðjustefnuna er líka sá eini í þeim hópi sem hefur sýnt fram á hæfileika í viðskiptalífinu. Hann sagði nýverið í útvarpsviðtali: ,,Ef einstaklingar fara ekki út í atvinnurekstur þá horfa menn á útlendinga, að þeir fjárfesti hérna í stórframkvæmdum. Ég tel það ekki vera eins heilbrigt." Í þingræðu í fyrra sagði Pétur: ,,Ég tel að álið sé orðið það stór hluti af efnahagslífi Íslands að það sé ekki endilega skynsamlegt að bæta við. Álútflutningur er orðinn töluvert meiri en sjávarútvegurinn og þá er komin ákveðin áhætta." Áhætta! Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt með eftirminnilegum hætti að hann er meira en til í að taka áhættu með íslenska hagkerfið.

Úr atvinnulífinu, þ.e. þeim hluta þess sem á ekki beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta, heyrast svipaðar raddir. Þannig sagði Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Marorku, í viðtali í fyrra að við stefnumótun í efnahagsmálum þyrfti skammsýni að víkja fyrir framtíðarsýn: ,,Sá hluti atvinnulífsins sem tengist nýtingu á auðlindum, hvort sem það er sjávarútvegur eða stóriðja, takmarkast við auðlindirnar sjálfar. Hagvöxtur og atvinnusköpun til framtíðar litið getur ekki verið drifinn áfram af auðlindanýtingu, nema að litlu leyti." Nú um helgina birti Fréttablaðið viðtal við Hilmar Braga Janusarson, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Össuri og nýráðinn forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Hann sagðist ungur hafa kynnst þeirri hugmyndafræði hjá Jóni Sigurðssyni, forstjóra Járnblendifélagsins, að til að bæta lífskjör hér á landi til frambúðar yrðu Íslendingar að leggja frekar rækt við nýsköpun en hinar hefðbundnu grunngreinar sem alfarið byggja á frumnýtingu auðlinda. Hilmar sagðist kalla þessa gömlu ofuráherslu á auðlindahagfræði ,,súpukjötshagfræði", þar sem allt gengi út á hámörkun framleiðslumagns: ,,Slík hugmyndafræði gengur um of á auðlindir landsins og þurreys þær, hvort eð heldur með virkjunum eða ofveiði. Athugaðu, að við Jón tileyrum báðir iðnaðarframleiðslu, en hann vissi sem var að þetta fyrirkomulag eitt og sér gengi ekki til lengdar."

Jón Steinsson, hægri sinnaður hagfræðingur og lektor við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, skrifaði í Fréttablaðið í mars 2010 að því miður hefði vantraust á markaðsöflin lengi verið landlægt í stjórnmálum á Íslandi og það virtist síst minna á hægri væng stjórnmálanna en þeim vinstri: ,,Eða hvernig samrýmist það yfirlýstri hugmyndafræði hægrimanna að kalla í sífellu eftir ,,stefnu stjórnvalda í atvinnumálum"? Á ekki stefna stjórnvalda í atvinnumálum einungis að vera að skapa sterkan lagaramma og leyfa síðan einkaframtakinu að sjá um atvinnusköpun. Þvert á þessa hugmyndafræði virðist lausnin í huga margra alltaf vera sú sama þegar eitthvað bjátar á: Byggjum fleiri álver".

Og hvernig geta meintir hægrimenn verið svona lengi að átta sig á efnahagslegu verðmæti óspilltrar náttúru? Ísland væri ekki til á heimskortinu í hugum flestra ef það væri ekki fyrir óspillta krafta íslenskrar náttúru. Það er hún sem skapar okkur þá sérstöðu sem vekur athygli fólks og aðdáun um allan heim. Þess vegna skilar engin atvinnugrein eins miklu til vergrar landsframleiðslu hér á landi og ferðaþjónustan. Að eyðileggja þessa sérstöðu fyrir erlenda stóriðju væri eins og fyrir tryggingafélag að eyða bótasjóðnum sínum í fasteignabrask í fjarlægu landi. Æi, já - alveg rétt.

Sjálfstæðisflokkurinn stefnir inn í kosningavetur með áætlunarbúskap sem meginstefnu í atvinnumálum. Er enginn flokkur í boði fyrir alvöru hægrimenn