27. ágú. 2012

Kjósum um Háskólasjúkrahús


Fyrirhuguð bygging nýs Háskólasjúkrahúss er að verða eitt stærsta deiluefnið í samfélaginu. Í fréttum Rúv í gær fullyrti fyrrverandi formaður Arkitektafélags Íslands að spítalinn væri stórslys í uppsiglingu. Nýbyggingar á spítalareitnum yrðu sambærilegur að umfangi og allar byggingar í Fellahverfi og Mjódd. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifaði nýverið pistil þar sem hann varaði við því að ríkið hæfi slíkar framkvæmdir í ljósi skulda ríkissjóðs sem nema nú 1660 milljörðum með meðfylgjandi 70 milljarða vaxtakostnaði á ári. Þá rakst ég á viðtal í síðasta Fréttatíma við ungan mann sem barist hefur við krabbamein í höfði og hefur því fengið að kynnast heilbrigðiskerfinu nánar en flest okkar. Hann hafði þetta að segja um fyrirhugaðan spítala: ,,Ég hef ekki hitt lækni sem er sammála því að byggja nýjan spítala. Það er hægt að gera margt sniðugra fyrir 100 milljarða plús."

Í þessu ljósi er eðlilegt að margir efist um ágæti framkvæmda við Háskólasjúkrahús.

En málið mjatlar áfram í kerfinu án þess að almenningur nái almennilegum tökum á því. Reykjavíkurborg hefur auglýst tillögu að skipulagi fyrir svæðið og eitt leiðir af öðru. Reykvíkingar fá að sitja fundi, spyrja spurninga og senda inn umsagnir og ábendingar. En umræðan verður aldrei leidd til lykta og einn daginn verður svo byrjað að byggja. Slík niðurstaða mun svo ala á enn frekari óánægju meðal almennings og draga úr trausti á stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu - hinu lýðræðislega ferli.

Augljós leið til að koma í veg fyrir þessa þróun mála og leiða umræðuna til lykta er að almenningur fái að kjósa um spítalann. Eðlilegast væri að borgarstjórn tæki ákvörðun um slíka íbúakosningu. Geri hún það ekki þá getur almenningur krafist atkvæðagreiðslu samkvæmt 108. gr. sveitarstjórnarlaga sem tóku gildi í upphafi árs. Samkvæmt þeim þarf að lágmarki fimmtungur kosningabærra íbúa sveitarfélags að undirrita slíka kröfu. Í Reykjavík gerir það um 18.000 undirskriftir. Ég efast ekki um að slíkur fjöldi fólks vill fá að kjósa um byggingu Háskólasjúkrahúss.

Í mínum huga er endanleg ákvörðun um það hvort við byggjum Háskólasjúkrahús ekki aðalatriði, heldur það hvernig við komumst að þeirri niðurstöðu í sameiningu. Við ættum öll að geta unað sæmilega sátt við niðurstöðuna ef hún verður tekin á lýðræðislegan hátt í íbúakosningu