27. júl. 2012

Hættuspil Landsvirkjunar við Mývatn

Virkjanavélin virðist óstöðvandi. Nú er hún í fullri alvöru að undirbúa virkjanir í Skjálfandafljóti og Hvíta sem myndu hafa áhrif á rennsli Gullfoss og þurrka upp Aldeyjarfoss. Þá er virkjun í undirbúningi á miðhálendinu og framkvæmdir við jarðvarmavirkjun við Mývatn mun hefjast innan skamms. Allt er þetta liður í fimmtán ára áætlun Landsvirkjunar um tvöföldun orkuframleiðslu. Og enn er deilt um það hvoru megin öfgarnar liggja í virkjanaumræðunni.

Ég fór nýverið norður í Mývatnssveit til að kynna mér fyrirætlanir Landsvirkjunar þar. Héðan í frá kemur ekkert í veg fyrir að 90 MW Bjarnarflagsvirkjun verði reist við Mývatn. Sveitarstjórn er fylgjandi virkjuninni, skipulagsvinna er að klárast, umhverfismat virkjunarinnar var unnið 2003 og vernd svæðisins var afnumin með lögum árið 2004. Það er því komið grænt ljós á að virkjunin verði byggð. Útgáfa framkvæmdaleyfis, starfsleyfis og virkjanaleyfis er í raun bara formsatriði, enda er Landsvirkjun nú þegar búin að flytja vinnubúðir fyrir iðnaðarmenn á svæðið og hefur keypt húsnæði Kísiliðjunnar fyrir sína starfsemi.

Á kynningarfundi um virkjunina sem Landsvirkjun hélt í Grunnskóla Skútustaðahrepps fyrr í þessum mánuði kom fram að reisa eigi virkjunina til að uppfylla orkusölusamning við kísiliðju á Húsavík upp á 52 MW. Framkvæmdir geta hafist með stuttum fyrirvara næsta vor en gert er ráð fyrir að fyrri áfangi virkjunarinnar, 45 MW, gæti verið tilbúinn í lok árs 2015. Að sögn talsmanna Landsvirkjunar er slík orka til í raforkukerfinu nú þegar en Landsnet, dótturfélag Landsvirkjunar, segir að virkja verði í nágrenni Húsavíkur, þ.e. á Þeistareykjum eða Bjarnarflagi, til að tryggja flutningsöryggi orkunnar.

Það var greinilegt á fundinum að áhyggjur af mögulegum afleiðingum virkjunarinnar fara vaxandi. Hér er líka um einstakt svæði að ræða á heimsvísu sem krefst varúðar, eða eins og segir í formála Verndaráætlunar Mývatns og Laxár 2011-2016: ,, Það er því skylda núlifandi kynslóðar að varveita sérstöðu þessa merkilega svæðis og þar með að tryggja komandi kynslóðum sama aðgengi og svipaða upplifun og við getum notið nú í dag."

Á kynningarfundinum voru fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir ræddar frá ýmsum hliðum þó flestar spurningar hafi snúið að mögulegri mengun Mývatns og loftmengun í Reykjahlíð.

Tengsl jarðhita og grunnvatns er ein af undirstöðum sérstæðs lífríkis Mývatns. Þess vegna óttast margir að grunnvatnsstraumar sem renna í Mývatn kunni að mengast þegar mikið magn af jarðhitavökva verður dælt upp á yfirborðið með tilkomu virkjunarinnar. Í þessum efnum vísuðu fundarmenn í umsögn Umhverfisstofnunar um deiliskipulag Bjarnarflagsvirkjunar frá mars 2011 þar sem sagði að stofnunin teldi nauðsynlegt að öllu affallsvatni yrði dælt í jarðhitageyminn til að koma í veg fyrir hugsanleg áhrif affallsvatnsins á nærumhverfið. Fulltrúar Landsvirkjunar tilkynntu á fundinum að affallsvatni yrði dælt ofan í fóðraðar 200-500 metra djúpar holur, niður fyrir þá grunnvatnsstrauma sem hafa áhrif á Mývatn.

Margir spurðu um mögulega brennisteinsvetnismengun, m.a. í Reykjahlíð sem er u.þ.b. í þriggja kílómetra fjarlægð frá fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun. Í áðurnefndri umsögn Umhverfisstofnunar segir t.d. að líkanreikningar bendi til að í Reykjahlíð muni brennisteinsvetni fara yfir mörk 55 daga á ári með mögulegum áhrifum á heilsu fólks. Því taldi stofnunin að ekki væri hægt að reisa virkjunina án hreinsunar úr útblæstri. Fram kom í máli fulltrúa Landsvirkjunar á fundinum að þeir telji að mengunin verði ekki mikil og því standi ekki til að fara í dýrar mengunarvarnaraðgerðir sem myndu hafa veruleg áhrif á arðsemi virkjunarinnar. Komi hins vegar í ljós að brennisteinsvetnismengun fari yfir mörk í Reykjahlíð þá verði brugðist við því.

Fleiri mál brunnu á fundarmönnum sem rétt er að gefa gaum.

Volgur grunnvatnsstraumur ber uppleystan kísil í Mývatn sem er svo undirstaða fjölbreytts lífríkis vatnsins. Í áðurnefndri verndaráætlun Mývatns og Laxár segir um þetta: ,,Einnig þarf að hafa í huga að kísilrennsli til Mývatns raskist ekki vegna kælingar eða þynningar jarðhitavatnsins sem í það rennur." Spurt var hversu mikið þessi straumur myndi kólna með aukinni orkuvinnslu í Bjarnarflagi. Þessu var ekki svarað en þó fullyrt að ef kólnunar færi að gæta yrði grunnvatnið hitað með því að losa affallsvatn á yfirborði.

Þá var spurt um skáboranir undir Námafjall, hversu langt yrði borað og hvaða áhrif það kynni að hafa á Hveraröndina, vinsælan ferðamannastað austan Námafjalls sem er eina aðgengilega háhitasvæðið við hringveginn. Fulltrúar Landsvirkjunar sögðust ekki geta fullyrt hvaða áhrif þessar boranir hefðu, þær gætu allt eins aukið hveravirkni á svæðinu.

Starfsmenn Landsvirkjunar áttu sem sagt svör við öllum spurningum. En fundarmenn voru ekki allir sannfærðir, síður en svo, enda starfsmenn fyrirtækisins sem ætlar að reisa og reka virkjunina sem sátu fyrir svörum, ekki hlutlausir sérfræðingar. Og sporin á Hellisheiði og víðar hræða. Eins og einn fundarmanna benti á þá fluttu sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur sömu ræðurnar þegar Hellisheiðarvirkjun var undirbúin. Engin vandamál áttu að koma upp, t.d. í tengslum við affallsvatn og brennisteinsvetni. Er einhver ástæða til að ætla að sérfræðingar Landsvirkjunar séu sannspárri en kollegar þeirra hjá Orkuveitunni?

Hér eru miklir hagsmunir í húfi. Mývatn sjálft er undir, lífríki þess og umhverfi. Þess vegna treysti ég ekki Landsvirkjun til að hafa fulla stjórn á þessari framkvæmd. Að hún geti t.d. stjórnað hitastigi grunnvatnsstraumsins í Mývatn, haldið aftur af brennisteinsvetnismengun í Hverahlið án mengunarvarnarbúnaðar og komið í veg fyrir að jarðhitavirkni Hverarandarinnar breytist. Þess vegna verða opinberar stofnanir að grípa inn í þetta ferli og sjá til þess að fyllstu varúðar verði gætt. Þannig verður Heilbrigðisnefnd Norðurausturlands að setja ströng skilyrði í starfsleyfi virkjunarinnar, t.d. um hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri og niðurdælingu affallsvatns. Þá þarf Orkustofnun að setja ströng skilyrði í virkjanaleyfi, t.d. um áhrif á grunnvatnsstrauma og skáboranir undir Námafjall.

Landsvirkjun hefur nú þegar eyðilagt lífríki Lagarfljóts. Þá sögu má ekki endurtaka við Mývatn.