2. júl. 2012

Almenningur greiðir meðlag með stóriðju

Aumingjavæðing atvinnulífsins heldur áfram. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 krafðist bæjarstjóri Norðurþings enn einnar hækkunarinnar á meðlagsgreiðslum almennings með stóriðjunni.

Bæjarstjórinn krafðist tveggja milljarða króna fyrir vegagerð og hafnir vegna iðnaðaruppbyggingar á Bakka og sagði að stóriðja á Húsavík ætti þetta inni vegna þess að álverið á Reyðarfirði hefðii fengið þrjá milljarða úr vasa skattgreiðenda á sínum tíma til slíkra framkvæmda.

Réttlætingin fyrir þessum meðlagsgreiðslum er alltaf sú að stóriðjan skapi störf og tekjur. Samt hafa sum stóriðjufyrirtæki, líkt og Elkem, ekki greitt tekjuskatt í mörg ár og álverin borguðu einungis tæpar 300 milljónir í tekjuskatt fyrirtækja árið 2009 samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu. Þá leggur stóriðjan aðeins um 1,7% til landsframleiðslunnar, sem endurspeglar fyrst og fremst þá staðreynd að innlend framleiðsluþáttanotkun þessara fyrirtækja fyrir utan raforku er mjög takmörkuð, eins og segir í skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun í fyrra.

Tekjurnar eru sem sagt sáralitlar. En almenningur skal samt borga meðlagið. Tökum nokkur dæmi.

Landsnet stefnir nú að því að byggja upp 220kv hringtengingu um landið og þvert yfir hálendið. Ljóst er að þessi uppbygging er gerð fyrir stóriðjuna, ekki almenning, enda einungis spáð um 2% aukningu í raforkunotkun til almennra nota til 2030. En stóriðjan fær ekki sendan reikninginn. Þú borgar.

Gríðarleg skuldasöfnun orkufyrirtækjanna vegna virkjanaframkvæmda fyrir stóriðju gerði hrunið mun alvarlegra en það annars hefði orðið. Orkufyrirtækin stuðla nú að lækkun krónunnar vegna vaxtagreiðslna í erlendri mynt og Seðlabankinn þarf að verja gengið. Þú borgar.

Orkuveita Reykjavíkur varð næstum gjaldþrota, m.a. vegna örrar uppbyggingar fyrir stóriðju og lélegra orkusölusamninga við álver. Fyrirtækið hækkaði gjaldskrána á almenning til að forðast gjaldþrot. Þú borgar.


Kárahnjúkavirkjun leiddi til innflæðis gjaldeyris sem nam yfir 25% af þjóðarframleiðslu á fáeinum árum. Seðlabankinn þurfti að hækka vexti, krónan styrktist óhóflega og innstreymi erlends skammtímafjármagns jókst. Bólan var blásin út þar til hún sprakk. Þú borgar.


Stóriðjustefnan heldur áfram og bæjarstjóri Norðurþings syngur: ,,Upp með hendur, niður með brækur, peningana, ellegar ég slæ þig í rot. Haltu kjafti, snúðu skafti, aurinn eins og skot.