27. jún. 2012

Lýðræðisprinsipp forsetans :)

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti til sextán ára, fjallaði um afstöðu sína til beins lýðræðis í umræðuþætti forsetaframbjóðenda á Stöð 2 nýverið. Aðspurður um yfirlýsingar sínar um kvótafrumvörpin sagði Ólafur: ,,Og ef að stór hluti þjóðarinnar vill fá það ákvörðunarvald í sínar hendur þá er það bara almenn prinsipp yfirlýsing af minni hálfu vegna þess að ég er fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum og réttindum þjóðarinnar að hún fái það. ... Það er bara grundvallarprinsipp að þjóðin geti ákveðið sín stærstu mál."

Flott hjá forsetanum. En er einhver ástæða til að trúa því að þetta sé eitthvert prinsippmál í huga forsetans? Reynslan segir okkur að svo sé ekki.

Ólafur sýndi ekki áhuga á að beita málskotsrétti forsetans fyrr en auðugir og valdamiklir vinir hans áttu undir högg að sækja. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vildi takmarka völd þeirra með fjölmiðlalögunum svonefndu, en Ólafur Ragnar kom í veg fyrir það með því að synja lögunum staðfestingar. Áður en það gerðist höfðu bæði öryrkjar og náttúruverndarsinnar leitað eftir samskonar stuðning frá forsetanum en án árangurs.

,,Það er bara grundvallarprinsipp að þjóðin geti ákveðið sín stærstu mál", sagði forsetinn í kosningaþætti Stöðvar 2. ,,Sín stærstu mál". Hvort er nú stærra mál - Kárahnjúkavirkjun eða fjölmiðlalögin? Fjölmiðlalögin voru þrátt fyrir allt bara stafur á bók sem mátti breyta eftir þörfum. Kárahnjúkavirkjun var aftur á móti óafturkræf framkvæmd í náttúru Íslands sem átti eftir að kosta fjögur mannslíf. Skoðum þessi mál nánar.

Markmiðið með fjölmiðlalögunum var að koma í veg fyrir að einn aðili ætti meira en 35% í einu fjölmiðlafyrirtæki og að markaðasráðandi aðili ætti ekki meira en 5%. Deilt var um hvort málið stæðist stjórnarskrá, t.d. eignarréttarákvæðið. Það lá hins vegar fyrir að lögin áttu ekki að taka gildi fyrr en tveimur árum eftir samþykki þeirra. Jón Ásgeir og aðrir auðugir eigendur fjölmiðlafyrirtækja hefðu því getað fengið úrlausn mála sinna hjá dómstólum ef þeir hefðu talið lögin brjóta á rétti sínum. Forsetinn beitti þeim rökum fyrir að synja frumvarpinu staðfestingar að brúa þyrfti gjá milli þings og þjóðarvilja. Samkvæmt Fréttablaðinu 27. apríl 2004 voru 77% andvíg fjölmiðlafrumvarpinu, þ.e. af þeim sem tóku afstöðu. Ef við tökum hlutfallið af öllum aðspurðum í könnuninnni þá voru það 59% sem lýstu sig andvíg fjölmiðlafrumvarpinu. Gjá milli þings og þjóðar var því ekki stærri en svo.

Káranhjúkavirkjun var stærsta framkvæmd í sögu þjóðarinnar, fjárfesting upp á mörg hundruð milljarða með tilheyrandi skuldsetningu opinberra fyrirtækja sem skattgreiðendur gengust í ábyrgð fyrir. Um var að ræða gríðarlega og óafturkræfa röskun á náttúru Íslands sem fólst m.a. í því að færa heilu jökulfljótin sveitanna á milli með alvarlegum keðjuverkandi áhrifum á náttúrufar, t.d. eyðileggingu Lagarfljóts. Fjórir menn létu lífið við byggingu virkjunarinnar og fjöldi manna varð örkumla. Forsetinn var spurður út í það á beinni línu DV.is fyrir nokkru hvers vegna hann hefði ekki vísað lögum um Kárahnjúkavirkjun til þjóðarinnar. Hann svaraði: ,,Það mál kom ekki á mitt borð með þessum hætti og mér bárust engar óskir sem gæfu til kynna að ríkur þjóðarvilji væri á bak við slíka atkvæðagreiðslu." Þetta stenst ekki skoðun. Strax í ársbyrjun 2002 var borin fram þingsályktunartillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram Kárahnjúkavirkjun og önnur slík tillaga var lögð fram ári seinna. Báðar þessar tillögur voru svæfðar í nefndum Alþings. Samkvæmt skoðanakönnun Gallup voru 64% á því í febrúar 2003 að þjóðin ætti að fá að kjósa um Kárahnjúkavirkjun. Hópur anstæðinga virkjunarinnar óskaði eftir fundi með forsetanum snemma árs 2003 til að hvetja hann til að beita málskotsréttinum, en Ólafur kaus að taka ekki á móti fólkinu fyrr en að hann var búinn að staðfesta umrædd lög. Í ársbyrjun 2003 skrifaði Sjálfstæðismaðurinn Pétur Björnsson, fyrrverandi forstjóri Vífilfells, grein í Morgunblaðið þar sem hann hvatti til þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun. Krafan var því ekki bundin við stuðningsmenn einstakra flokka. Framangreint setur orð forsetans á beinni línu DV.is í óþægilegt ljós: ,,Það mál kom ekki á mitt borð með þessum hætti og mér bárust engar óskir sem gæfu til kynna að ríkur þjóðarvilji væri á bak við slíka atkvæðagreiðslu."

,,Það er bara grundvallarprinsipp að þjóðin geti ákveðið sín stærstu mál", sagði forsetinn í kosningasjónvarpinu og laug enn eitt skiptið að þjóðinni."

(Viðbót 28.6.2012. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég hefði ekki átt að sleppa því í pistlinum að saka forsetann um lygar. Þjóðfélagsumræðan þarf einhvernveginn ekki á því að halda að slík orð séu notuð. En eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að breyta þessu ekki og vísa þá í eftirfarandi dæmi:
- ,,Sjálfur telji hann tvö til þrjú kjörtímabil hæfilegri tíma fyrir setu forseta." - Morgunblaðið 12. júní 1996. - -- ,,Niðurstaðan kann að hljóma sem þversögn en er engu að síður sú að aðstæður þjóðarinnar séu þess eðlis að ég geti fremur orðið að liði ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum. ... Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mér leiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs." - Nýársávarp 2012.
- ,,Fréttin var sérhönnuð til að sá efasemdum í minn garð, þetta fékk hann að gera á sama tíma og þau höfðu samþykkt að fylgi hennar hefði verið mælt." Sprengisandi 13. maí 2012.)