22. jún. 2012

Hugsum út fyrir rammann

Það eru allir sultuslakir þótt afgreiðslu rammaáætlunar hafi verið frestað til haustsins. Í Morgunblaðinu í gær sagði aðstoðarframkvæmdastjóri Landsvirkjunar að til skamms tíma litið hafi það ekki mikil áhrif á starfsemi Landsvirkjunar þótt samþykkt áætlunarinnar dragist eitthvað og samkvæmt upplýsingum innan úr Orkuveitu Reykjavíkur hefur frestunin engin áhrif á fyrirtækið. Það hafi engin slík áform uppi að því bráðliggi á að málinu verði lokið.

Við höfum efni á því að vera sultuslök þegar kemur að virkjanamálum. Við eigum heimsmetið í raforkuframleiðslu. Og við eru sautjánda umsvifamesta fiskveiðiþjóð heims með 2% af heildarafla. Svo fengum við fréttir í gær af gríðarlega auknum tekjum af ferðaþjónustu. Á þessari gullkistu sitjum við, rétt rúmlega 300.000 manna þjóð - yfirstétt í hnattrænum skilningi.

Krafan um fleiri virkjanir og stóriðju hefur verið sett fram af svo mikilli ákefð og tilfinningahita að það mætti ætla að við værum óiðnvædd og fátæk þjóð. Einn talsmaður verkalýðshreyfingarinnar orðaði það svo að íslenska kotsamfélagið yrði að veruleika ef horfið yrði frá stóriðjustefnunni.

Nú þurfum við að hafna slíkum hræðsluáróðri og gefa okkur andrými í umræðunni um virkjana- og stóriðjumál, setjast á rökstóla og leita skynsamlegrar niðurstöðu. Við höfum bæði tíma til og efni á að hugsa út fyrir ramman.