8. jún. 2012

Ari Trausti fær mitt atkvæði

Eftir kosningasjónvarp kvöldsins hef ég gert upp hug minn og mun kjósa Ara Trausta Guðmundsson í forsetakosningunum 30. júní. Hann bar af í umræðum kvöldsins, var t.d. óhræddur við að gagnrýna forsetann og gerði það á málefnalegan hátt. Auk þess gerði hann bestu tilraunirnar til að leiða umræðuna á áhugaverðari brautir og leiddist greinilega þetta stagl um núverandi forseta, skoðanakannanir, Icesave og 26. grein stjórnarskrárinnar.

Það þarf engum að koma á óvart að afstaða frambjóðenda til umhverfismála ræður líka miklu um það hvern ég kýs. Ari Trausti var í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 fyrir skömmu og var þar beðinn um að útskýra hvað hann ætti við með því að forsetinn þyrfti að velta steinum og vekja máls á óþægilegum umræðuefnum. Hann svaraði því með þessari ljómandi góðu hugvekju: ,,Við skulum taka til dæmis svona einfalt atriði eins og hlýnun jarðar. Höfum við áhyggjur af því? Já. Erum við að gera eitthvað í því? Voða lítið. Núna þegar heimskautasvæðin fara verða íslaus að einhverju leyti, þá eru miklar hugmyndir manna um að fara að dæla hér upp olíu og annað slíkt og ég gæti alveg hugsað mér að forseti Íslands, að hann spyrði hvort það væri ráðlegt. Hvort það væri rétt að horfa á sjávarborðið hækka og ógna byggð í landinu á sama tíma sem menn halda áfram að dæla upp olíu og brenna henni. Þetta er svona einföld spurning. Ég myndi ekki sem forseti koma svo með alfræðiorðabókasvarið. Það yrðu aðrir að koma með og þannig myndi maður ef til vill skapa umræðu sem leiddi til einhvers því mér finnst skorta á svona umræðu í samfélaginu og ekki bara það, mér finnst líka skorta á það menn sýni miklu meiri ábyrgð. ... Þetta stóra orð ábyrgð og hef talað um það að menn þurfi að sýna aukna ábyrgð, hvort sem það eru þá menn sem eru að véla um olíuvinnslu á norðurslóðasvæðinu. Og ég er ekki bara að tala um Íslendinga. Ég er að tala um alþjóðasamfélagið. ... Þetta er eitthvert stysta orð sem hægt er að segja, ábyrgð, en það er eitthvert það þungvægasta sem til er."

Það er einmitt svona hlutir sem við þurfum að ræða í kosningabaráttunni - verkefnin framundan, heimsmyndin, sameiginleg ábyrgð og sjóndeildarhringurinn. Við þurfum forseta sem dregur okkur upp úr drullupolli persónupólitíkur, vekur okkur til umhugsunar um stóru málin og ögrar okkur vitsmunalega. Að mínum dómi yrði Ari Trausti Guðmundsson þannig forseti.