22. maí 2012

Hættu málþófi í skiptum fyrir utanvegaakstur

Fréttastofa Rúv sagði í kvöld frá skemmdum á náttúru Íslands vegna aksturs utan vega á leiðinni upp í Herðubreiðarlindir. Í sama fréttatíma sagði Rúv frá því að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefðu í dag samþykkt að hætta málþófi um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá með því skilyrði að frumvarp til laga um náttúruvernd yrði tekið af dagskrá þingsins og vísað aftur í nefnd. Nú vill svo til að markmið þessa frumvarps er einmitt að draga úr skemmdum á náttúru Íslands af völdum utanvegaaksturs með því að skerpa reglur um slíkan akstur, skilgreina betur hvað telst akstur utan vega og eyða óvissu um akstursleiðir sem heimilt er að aka. Akstur utan vega virðist vera vaxandi vandamál. Fjöldi frétta af alvarlegum afleiðingum utanvegaaksturs bendir til þess, m.a. nýleg frétt Morgunblaðsins um akstur utan vega á hálendinu norðan Vatnajökuls. Það er því rík þörf á að náttúruverndarlögum verði breytt í þá veru að hægt verði að takast á við þessa ógn við íslenska náttúru. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þurfa því að útskýra hvers vegna þeir lögðu svo ríka áherslu á að koma í veg fyrir að einmitt slíkt frumvarp yrði samþykkt á Alþingi