2. apr. 2012

Upprópanir á Rúv - staðreyndir á Google

Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra kynntu tillögu sína til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða á föstudag. Síðan þá hafa fréttamenn Rúv leyft þremur virkjanasinnuðum stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum að fara með einræður í fréttatímum sjónvarps.
Á föstudag opnaði fréttastofa Rúv fyrir hljóðnemann fyrir framan iðnaðarráðherra, Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokk á laugardag og í kvöld var það svo forstjóri Landsvirkjunar sem sagði fréttirnar.
Jón Gunnarsson hafði meðal annars þetta að segja um færslu virkjana í neðri hluta Þjórsá í biðflokk: ,,Við erum bara að horfa á það að hagvöxtur er ekki að fara hér af stað þannig að atvinnuleysi verðu hér með því sama og það hefur verið. Það eru ekki að fara skapast þau störf sem við þurfum á að halda."
Það tekur líklega ekki meira en tvær mínútur á Google að finna út að hagvöxtur mældist 3,1% hér á landi í fyrra. Það var meiri hagvöxtur en t.d. í Danmörku, Noregi, Sviss, Þýskalandi, Finnlandi, Hollandi, Írlandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Það tekur svo aðrar tvær mínútur á Google að komast að því að atvinnuleysi var 7,6% árið 2010, 7,1% í fyrra og verður 6,1% á þessu ári samkvæmt spám. Á það var ekki minnst í frétt Rúv.
Og um ofmetin hagvaxtaráhrif stóriðjustefnunnar hefur margt verið skrifað og rætt í gegnum tíðina. Til dæmis í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands: ,,Þegar á allt þetta er litið virðist fremur langsótt að telja umtalsverðan þjóðhagslegan ábata hafa orðið af tímabundinni atvinnuaukningu vegna fjárfestinga í áliðnaði." Og úr skýrslu Landsvirkjunnar frá því í fyrra: ,,Kjarni málsins er sá að þegar söluaðili raforkunnar er opinber aðili sem greiðir arð til ríkisins en kaupandi er erlent stórfyrirtæki sem flytur allan hagnað úr landi ræðst þjóðhagslegur ábati vegna raforkuframleiðslu fyrst og fremst af því raforkuverði sem þessir aðilar semja um á milli sín. En þeir þættir sem mest ber á í umræðunni um stóriðjuna hérlendis, s.s. sköpun starfa, skipta mun minna máli."
En fréttastofa Rúv er ekkert að flækja málin með staðreyndum þegar innihaldslausar upphrópanir eru í boði. Ef það eru staðreyndir og báðar hliðar máls sem almenningur sækist eftir þá verður hann að finna þær sjálfur á Google.