15. apr. 2012

Að kaupa óarðbæra virkjun á hugmyndastigi

Nú standa yfir samningaviðræður um að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun Orkuveitu Reykjavíkur sem selja á orku til fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Það vekur furðu hversu langt þessar samningaviðræður virðast komnar þrátt fyrir litla vænta arðsemi virkjunarinnar og það hversu undirbúningur virkjunarinnar er skammt á veg kominn. Nú bendir allt til þess að samningur OR um sölu á orku til Norðuráls hafi reynst Orkuveitunni óhagstæður. Agnes Bragadóttir skrifaði t.d. fréttaskýringu í fyrra þar sem hún sagðist hafa heimildir fyrir því innan OR að fyrirtækið vildi losna undan orkusölusamningi við Norðurál vegna þess að stjórnendur OR teldu að fyrirtækið hefði lítið sem ekkert upp úr viðskiptunum. Fyrirtækið vildi hins vegar ekki viðurkenna þetta og rifta samningnum af ótta við að þurfa að greiða Norðuráli skaðabætur. Stjórnarformaður OR sagði svo nýverið í viðtali við Rúv að jafnvel þó að fyrirtækið gæti losnað undan samningi um sölu á raforku til Norðuráls þá stæði eftir að það væri búið að fjárfesta gríðarlega í borunum og tilraunum og skuldbinda fyrirtækið til þess að kaupa mikinn búnað fyrir ,,fleiri, fleiri milljarða." Orkuveitan, eða hver sá sem tekur að sér að fjármagna virkjunina, virðist sem sagt skuldbundinn til að selja Norðuráli rafmagn með litlum eða engum hagnaði. Þar á ofan bætist að Hverahlíð er enn í dag lítið annað en hugmynd. Orkuveitan hefur borað sex rannsóknaborholur við Hverahlíðavirkjun án teljandi árangurs. Þess má geta að ein rannsóknaborhola er talin kosta um 500 milljónir króna. Þessar holur, að andvirði þriggja milljarða króna, hafa skilað svo litlum árangri að Orkuveitan hefur í hyggju að færa fyrirhugað orkuvinnslusvæði Hverahlíðavirkjunar til suðurs upp á Norðurhálsa því það svæði telur Orkuveitan að sé ,,líklegt vinnslusvæði". Málið er þó enn svo skammt á veg komið að fyrirtækið hefur ekki fengið tilfærsluna samþykkta inn á skipulag sveitarfélagsins Ölfuss, auk þess sem slík tilfærsla myndi eflaust leiða til þess að meta þyrfti umhverfisáhrif virkjunarinnar að nýju. Hverahlíðavirkjun er því í raun einungis virkjun á hugmyndastigi. Miðað við þetta gat ég með engu móti áttað mig á því hvers vegna lífeyrissjóðirnir virtust tilbúnir til að skoða það í fullri alvöru að fjárfesta í Hverahlíðavirkjun. Það rann hins vegar upp fyrir mér ljós við lestur leiðara Þórðar Snæs Júlíussonar um stöðu lífeyrissjóðanna í Fréttablaðinu 16. mars síðastliðinn. Þar segir hann meðal annars: ,,Þar sem nýir fjárfestingarmöguleikar á Íslandi eru nánast engir er hrikaleg stærð lífeyrissjóðanna í íslensku samhengi bóluvaldandi. Þá neyðast þeir líka til að leita í gerninga sem eru ekki nægilega arðbærir. Með öðrum orðum eru kjöraðstæður til að neyða þá til að taka þátt í fjárfestingum sem eru andstæðar starfsmarkmiði þeirra." Sé slíkur skortur á fjárfestingakostum hér á landi að lífeyrissjóðirnir velti í alvöru fyrir sér að kaupa óarðbæra virkjun á hugmyndastigi þá er augljóslega orðið brýnt að leyfa sjóðunum að fjárfesta erlendis í auknum mæli.