21. mar. 2012

Hefur Ísland ekki efni á þróunarhjálp?

Íslendingar eru yfirstétt í hnattrænum skilningi. Orkunotkun á mann hér á landi er sú mesta sem þekkist í heiminum, við framleiðum fimm sinnum meiri orku en við þurfum til eigin nota, sjávarauðlindin er gríðarstór, við framleiðum tíu sinnum meira af próteini en við neytum, við eigum gnógt af hreinu vatni og við eigum náttúru sem sífellt fleiri ferðamenn sækjast eftir að skoða. Á þessari gullkistu sitjum við, 300.000 manna þjóð.

Það má því tíðindum sæta að hér skuli ekki drjúpa smjör af hverju strái á hverju einasta heimili í landinu. En fyrir því eru þó einfaldar ástæður. Fiskurinn í hafinu var gefinn útgerðarmönnum sem hafa veðsett auðlindina upp í rjáfur, raforkan er gefin erlendum fyrirtækjum sem flytja arðinn til útlanda og við höfum valið okkur stjórnmálamenn sem hafa flestir litið á það sem sitt hlutverk að blása í hverja efnahagsbóluna á fætur annarri með tilheyrandi afleiðingum fyrir krónuna og almenning. Vandamálið hér á landi er því ekki fátækt þjóðarinnar heldur það að okkur hefur ekki borið gæfa til að deila auðæfunum á milli okkar á sanngjarnan hátt.

Það er því sorglegt að horfa upp á stjórnmálamann halda því fram að þjóðin hafi ekki efni á að styðja við bakið á fátækustu þjóðum heims. Að stilla málum upp þannig að þjóðin þurfi að velja á milli þess að veita þróunaraðstoð og þess að reka eigin heilbrigðisstofnanir er fásinna. Væri ekki nær fyrir þennan stjórnmálamann að berjast fyrir því að þjóðin fái t.d. að njóta tekna af makrílveiðum eða að dregið verði úr bruðli ýmiskonar, t.d. við lyfjagjöf í íslenska heilbrigðiskerfinu. Þannig getur þjóðin orðið enn ríkari án þess að það bitni á fátækasta fólki Jarðar.

Íslendingar hafa lagt skammarlega lítið til þróunaraðstoðar á undanförnum árum, ekki síst í ljósi þess hversu mikla þróunaraðstoð við höfum þegið í gegnum tíðina. Við þáðum t.d. Marshall-aðstoð að lokinni síðari heimsstyrjöld sem var notuð til að byggja áburðarverksmiðju og virkjanir í Sogni og Laxá. Búrfellsvirkjun var líka fjármögnuð að hluta með þróunaraðstoð frá Alþjóðabankanum á áttunda áratugnum. Íslendingar eiga því sína velferð að miklu leyti þróunaraðstoð að þakka. Þá er ónefnd sú efnahagsaðstoð sem við þiggjum frá illa launuðu verkafólki þróunarríkjanna sem gerir okkur kleift að kaupa föt, leikföng, raftæki og ýmsar aðrar vörur á viðráðanlegu verði. Ef það væri ekki fyrir ömurleg kjör þessa fólks þá þyrfti hinn almenni Íslendingur að neita sér um margt af þessu. En að við aðstoðum svo eina fátækustu þjóð í heimi við að reisa sér spítala - það er ,,þvílíkt rugl" að mati áðurnefnds stjórnmálamanns.

Samhygð er orð sem við notum sjaldan í umræðunni þó að það sé eitt af fallegri orðum tungumálsins. Svona fann ég samhygð skilgreinda á netinu: ,,Samhygð er hæfileiki til að ímynda sér hvernig líf annarrar manneskju er, jafnvel við framandi kringumstæður."

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur fjallar um samhygðina í tveimur vísum sem ég heyrði fluttar í göngu við Grænavatn í janúar sem farin var til að minnast þess að öld var liðin frá fæðingu Sigurðar. Ég held að stjórnmálamaðurinn og skoðanabræður hans hefðu gott af því að lesa þessar vísur í góðu tómi.

Náttmyrkrið hlýtt við Himalaya

Náttmyrkrið hlýtt við Himalaya ei lét
mig heimþrá gleyma.
Úti í því var eitthvert barn sem grét
eins og heima.

Misjöfn er tungan mörg í byggðum heims,
mörg er þjóðin.
Alls staðar er þó sorgin sama hreims,
sömu hljóðin.

Andvökunótt á Ægissíðu (síðasta erindið)

Einn á villu á Ægissíðu
ekki langt frá Norðurpól.
Annars hús er ofið stráum
undir hitabeltissól.
Misjöfn teljast mega kjörin
mannanna og þó er víst,
að hvert mannsbarn alla daga
um einn og sama möndul snýst.