14. mar. 2012

Fjölmiðlar, háskólinn og álverin

Fréttastofa Rúv, fréttastofa Stöðvar 2, Morgunblaðið og Fréttablaðið fluttu í liðinni viku mjög einhliða og gagnrýnislausar fréttir af skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Samtaka álfyrirtækja um framlag áliðnaðarins til landsframleiðslu. Allir miðlarnir lögðu áherslu á framlag álveranna til útflutnings og vergrar landsframleiðslu. Enginn þeirra greindi frá því að í útreikningi á vergri landsframleiðsla væri ekki tekið tillit til vaxta sem renna til erlendra fjármálastofnana og arðgreiðslu til erlendra eigenda álveranna. Og enginn fjölmiðill greindi frá því að á móti miklum útflutningi álveranna lægi mikill innflutningur á aðföngum. Það kom mér því ekki á óvart þegar ég sótti fyrirlestur um helgina um gagnrýna hugsun á íslenskum fjölmiðlum eftir hrunið að fjölmiðlar fengu algjöra falleinkunn.

Eftir útgáfu skýrslunnar tók ég saman nokkra punkta og birti hér á blogginu. Spegillinn tók svo viðtal við Ragnar Árnason, prófessor og einn af höfundum skýrslunnar, og bar það undir hann hvort verg landsframleiðsla væri hentugasti mælikvarðinn á efnahagsleg áhrif álveranna. Ragnar svaraði hreinskilnislega: ,,Vegna þess að við erum að tala um íslenska þjóð en ekki landið í raun og veru þá væri réttara í öllu mögulegu samhengi í umræðum um íslenska hagkerfið að tala um þjóðarframleiðslu eða þá þjóðartekjur en ekki landsframleiðslu. Við hins vegar erum að tala um hlutfall af landsframleiðslu vegna þess að það er alltaf gert og það eru til samburðartölur frá öðrum atvinnuvegum um þá hluti."

Það væri sem sagt réttara ,,í öllu mögulegu samhengi í umræðum um íslenska hagkerfið" að beita öðrum mælikvarða en Hagfræðistofnun gerði og birti fjölmiðlum á sérstökum fréttamannafundi. Og stofnunin valdi að birta niðurstöðu sínar í öðrum og verri mælikvarða vegna þess að ,,það er alltaf gert". Hér skal það áréttað að mælikvarðinn sem Hagfræðistofnun notaði í skýrslunni málaði hlut álveranna miklu fegurri litum en sá mælikvarði sem er ,,réttari í öllu mögulegu samhengi í umræðum um íslenska hagkerfið".

Í þessu ljósi er fróðlegt að skoða siðareglur Háskóla Íslands, t.d. grein 2.1.1: ,,Kennarar, sérfræðingar og nemendur vinna í anda þeirra almennu sanninda að þekking hafi gildi í sjálfu sér auk gildis hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Þeim ber umfram allt að ástunda fræðileg vinnubrögð, leita sannleikans og setja hann fram samkvæmt bestu vitund." Og í grein 2.1.3 segir á einum stað: ,,Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu."

Háskólar og fjölmiðlar gegna því hlutverki að upplýsa almenning og vernda hann fyrir áróðri sérhagsmunaafla. Það hlutverk verða þeir að taka alvarlega.