1. feb. 2012

Almenningur getur krafist atkvæðagreiðslu

Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi 1. janúar síðastliðinn. Lögin marka tímamót að því leyti að þau binda í lög rétt almennings til að knýja fram atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélaga. Í 108. gr. laganna segir að ef minnst 20% af þeim sem kosningarétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skuli sveitarstjórn verða við því. Sá galli er að vísu á gjöf Njarðar að sveitarstjórnin þarf ekki að efna til kosninga fyrr en ári eftir að slík ósk berst, niðurstaða slíkra kosninga eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórnir og þeim er auk þess heimilt að breyta kröfunum þannig að það þurfi þriðjung kosningabærra íbúa sveitarfélagsins til að knýja fram atkvæðagreiðslu, ekki fimmtung.

Eins og lýðræðisfélagið Alda hefur bent á þá ganga núverandi lög ekki eins langt í lýðræðisátt og gert var ráð fyrir þegar frumvarpið kom fyrst fram, ekki síst vegna neikvæðra athugasemda Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ríkisstjórnin hefði betur staðið fast á sínu í þessum efnum í stað þess að láta íhaldssöm öfl stýra því hversu langt hún gengur í lýðræðisumbótum.

Engu að síður gefa lögin almenningi kærkomið tækifæri til að hafa áhrif á sitt umhverfi. Sveitarstjórnir eru nær alráðar þegar kemur að skipulagsmálum og því er bæði nauðsynlegt og eðlilegt að íbúar sveitarfélaga hafi möguleika á að grípa inn í umdeild mál. Við höfum dæmi um slíkt, t.d. úr Hafnarfirði þar sem Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík árið 2007. Þá veitti sveitarstjórnin almenningi rétt til að kjósa um málið. Nú hefur slíkur réttur verið bundinn í lög. Vonandi bregst fólk fljótt við þessum breytingum með því að krefjast atkvæðagreiðslu um umdeild mál. Mér dettur strax í hug að kjósa mætti um virkjanastefnu Orkuveitu Reykjavíkur eða um skipulagsmál á Grundartanga og við neðri hluta Þjórsár.

Nú þurfa Alþingismenn að taka næsta skref og semja frumvarp sem gerir almenningi kleift að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um stórframkvæmdir, t.d. stórar virkjanir, stóriðju og samgöngumannvirki.