29. feb. 2012

Alþingi rannsaki Orkuveitu Reykjavíkur

Stjórnmála- og embættismenn lögðu fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur í rúst á nokkrum árum og almenningur greiðir það nú dýru verði, t.d. með miklum hækkunum á orkuverði og tilheyrandi hækkun á verðbólgu og verðtryggðum lánum. Bjarni Bjarnason, forstjóri fyrirtækisins, sagði í fréttum í gær að fyrirtækið væri í viðkvæmri stöðu, skuldaði 240 milljarða og þyrfti að borga 44 milljarða í afborganir af lánum næstu tvö árin. Hann sagði að lítið mætti út af bera í rekstrinum. Ef breytingar yrðu á gengi, vöxtum eða álverði þá kæmi það mjög hart niður á fyrirtækinu. Fréttir benda einmitt til að þetta sé að gerast, það er offramboð á áli og krónan fellur hratt. Við getum því farið að búa okkur undir enn verri fréttir af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og að skattgreiðendur þurfi að hlaupa þar undir bagga með framlögum upp á milljarða króna. Staðan er því grafalvarleg.

Borgarráð skipaði þriggja manna úttektarnefnd síðasta sumar sem ætlað er á að gera úttekt á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Þetta er ágætis framtak hjá borgarráði en þó gallað að mörgu leyti. Úttektarnefnd hefur til dæmis engar heimildir til að krefja menn svara við erfiðum spurningum. Það er til vitnis um það hversu veikburða nefndin er að hún hefur þurft að auglýsa eftir ábendingum með litlum árangri. Þá vekur það furðu að borgarráð hafi valið einn af eigendum endurskoðunarstofunnar Ernst og Young til að leiða starf úttektarnefndarinnar, en fram hefur komið að Norðurál sé meðal helstu viðskiptavina stofunnar. Norðurál er einnig stærsti viðskiptavinur Orkuveitu Reykjavíkur og úttektarnefndin skoðar væntanlega að hversu miklu leyti megi rekja raunir OR til orkusölusamnings milli þessara fyrirtækja. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, sagði í Kastljósi 19. október 2011 að deilt væri um gildi samningsins og hvort OR væri skuldbundið til að afhenda rafmagn samkvæmt honum. Ég hef enga ástæðu til að efast um heiðarleika formanns úttektarnefndarinnar, en þessi tengsl hans við Norðurál draga engu að síður úr trúverðugleika úttektarinnar.

Það er því ljóst að niðurstaða úttektarnefndarinnar má ekki verða lokapunkturinn í rannsókninni á framgöngu og ábyrgð stjórnenda OR. Þá rannsókn þarf að framkvæma af miklu meiri alvöru. Þess vegna mun ég senda öllum Alþingismönnum bréf þar sem ég hvet þá til að skipa rannsóknarnefnd samkvæmt nýjum lögum um slíkar nefndir, sem falið yrði að rannsaka hvernig OR var gerð nær gjaldþrota, hverjir beri þar ábyrgð og hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög. Slík nefnd hefði mun ríkari heimildir en úttektarnefnd Reykjavíkurborgar. Þannig segir t.d. í 7. gr. laga um rannsóknarnefndir að sérhverjum sé skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að láta í té gögn og upplýsingar sem hún fer fram á þótt þær séu háðar þagnarskyldu. Þá segir í 5. gr. laganna að meginhlutverk rannsóknarnefndar sé að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum en einnig geti nefndin gert tillögu um breytingu á lögum og reglugerðum og einnig metið hvort grundvöllur sé fyrir því að einstaklingar skuli sæta ábyrgð vegna mála sem nefndin hefur til rannsóknar.

Í fróðlegri ræðu Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur á borgarstjórnarfundi 31. mars 2011 lýsir hún reynslu sinni af setu í stjórn OR 2004-2006. Þar segir hún meðal annars: ,,Allir útreikningar, ákvarðanir um framtíðarsýn og útreikningar sem lágu að baki fjárfestingarákvörðunum voru illa fram settar og illa rökstuddar. Gagnrýnum fyrirspurnum í stjórn var svarað með tilvísunum í að fyrirtækið væri gullkálfur með frábær lánskjör. ... Endalaust var rætt um fyrirtækið sem "gullkistu", "gullkálf"."

Miðað við þetta má flokka rekstur Orkuveitu Reykjavíkur undir eitt stærsta gullrán sem framið hefur verið hér á landi. Slíkt verður að rannsaka af fullri alvöru.