3. jan. 2012

Sérhagsmunir stjórna Hafró

Jón Bjarnason kvaddi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið með því að skipa fiskverkanda á Rifi stjórnarformann Hafrannsóknarstofnunar. Ekki get ég gert upp á milli fiskverkandans og prófessorsins sem var vísað úr stjórninni, til þess þekki ég ekki nægilega vel til fólksins og ekki nenni ég að hafa sérstaka skoðun á því að Jón hafi ákveðið að kveðja ráðuneytið með þessum hætti.

En ég hef skoðun á því að í stjórn Hafrannsóknarstofnunar sitja nú nær eingöngu hagsmunaaðilar úr greininni. Í stjórninni eiga sæti Erla Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar, Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og svo einn fulltrúi stofnunarinnar. Þetta er ekki stjórn sem er líkleg tl að verja sjálfstæði vísindamanna Hafró og hlutleysi stofnunarinnar. Nýskipaður formaður hefur beinlínis sagt Hafrannsóknarstofnun ógna sjávarútveginum!

Steingrímur J. Sigfússon atvinnumálaráðherra hefur sagt að skipun formannsins standi óhögguð. Að mínu mati gæti hann rétt eins skipað bankastjóra viðskiptabankanna í bankaráð Seðlabankans eða sett forstjóra orkufyrirtækjanna yfir Orkustofnun. Hver er munurinn? Steingrími væri nær að dusta rykið af tillögu til þingsályktunar frá 1999 um aðskilnað rannsóknastofnana, hagsmunasamtaka og ríkisvalds. Í tillögu þeirra Ólafs Hannibalssonar, Péturs H. Blöndal og Össurar Skarphéðinssonar segir meðal annars:

,,Það er eðli sannra vísinda að rannsóknir leiði til niðurstöðu sem er og á að vera óháð hagsmunum eða vilja vísindamanna eða annarra aðila. Því er brýnna en nokkru sinni fyrr að rannsóknastofnanir séu óháðar í vísindastarfsemi sinni, bæði stofnunum ríkisvaldsins og hvers konar hagsmunasamtökum á þeim sviðum sem þær rannsaka. Fátt er og betur til þess fallið að efla trúverðugleika þeirra og tiltrú þjóðarinnar".