20. jan. 2012

Ræður afstaða ferðaþjónustu eða stóriðju?

Tæp 80% erlendra ferðamanna segja að íslensk náttúra hafi haft mikil áhrif á þá ákvörðun að koma til Íslands og 72% töldu náttúruna helsta styrkleikann í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta er niðurstaða könnunar sem gerð var fyrir Ferðamálastofu síðastliðið sumar.

Miðað við þetta má álykta að óspillt náttúra sé forsenda áframhaldandi vaxtar ferðaþjónustunnar. Þess vegna er fróðlegt að skoða hver afstaða Samtaka ferðaþjónustunnar er til draga að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða (Rammaáætlun). Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra eru nú með þessi drög á sínu borði og vinna úr þeim tillögu sem verður vonandi lögð fyrir Alþingi á næstunni.

Það er greinilegt að ferðaþjónustan telur að of mörgum svæðum verði fórnað undir virkjanir samkvæmt drögunum sem lögð voru fram til umsagnar á liðnu ári. Samtök ferðaþjónustunnar leggja því til talsverðar breytingar á þeim. Þau mótmæla því til dæmis að Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir 1 og 2 séu settar í virkjanaflokk. Í umsögninnin segir: ,,Þessir virkjanakostir ættu að vera í verndarflokki enda við jaðar stærsta þjóðgarðs Evrópu og ferðamenn geta í dag notið víðernis á stórum hluta þessa svæðis.“

Samtökin leggjast einnig gegn virkjun á Sveifluhálsi og telja að svæðið væri betur nýtt sem Eldfjallagarður, enda séu miklar líkur á að verðmæti nærsvæða Reykjavíkur aukist mikið í tengslum við ferðaþjónustu á næstu árum.

Þá vekja samtökin athygli á að virkjanahugmyndir sem settar eru í biðflokk samkvæmt drögunum séu margar á gríðarlega mikilvægu svæði fyrir ferðaþjónustu, þar á meðal Búlandsvirkjun og Hólmsárvirkjanir og Hverfisfljót sem samtökin leggja til að fari í verndarflokk: ,,Þessir virkjanakostir eru í jaðri Fjallabakssvæðisins og Vatnajökulsþjóðgarðs en þarna liggja mikil tækifæri til uppbyggingar ferðaþjónustu. ... Með mikilli röskun á landi og ásýnd þess, með tilkomu mikilla mannvirkja sem bera straum, eru hugmyndir um uppbyggingu á þessu svæði takmarkaðar.“

Samtökin nefna einnig að Hveravellir séu settir í biðflokk en að þeir ættu að öllu eðlilegu að vera í verndarflokki, enda vinsæll ferðamannastaður til áratuga.Að auki benda samtökin á nauðsyn þess að virkjanakostir í Skagafirði verði settir í verndarflokk, en þar er nú þegar stunduð umfangsmikil ferðaþjónusta og mikil tækifæri eru til staðar sem samtökin segja að muni glatast verði ráðist í virkjanaframkvæmdir á svæðinu.

Eins mótmæla samtökin að Fljótshnúksvirkjun og Búðartunguvirkjun séu settar í biðflokk í stað verndarflokks og eins er virkjun í Skjálfanda sögð mjög umdeild og rétt sé að setja svæðið í verndarflokk.

Einnig benda samtökin á að þrátt fyrir að drögin geri ráð fyrir verndun Bitrusvæðisins sé enn mikil hætta á að ásýnd svæðisins skaðist gríðarlega með virkjunum í Innstadal, Þverárdal og Ölfusdal og því mótmæla samtökin því að þessir kostir séu settir í biðflokk í stað verndarflokks, enda sé svæðið gríðarlega mikilvægt fyrir styttri náttúruskoðunarferðir frá höfuðborgarsvæðinu, t.d. fyrir sívaxandi fjölda ráðstefnugesta.

Það verður spennandi að sjá tillögur iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra þegar þær verða lagðar fram á Alþingi. Þá kemur í ljós hvort tillit verði tekið til ferðaþjónustunnar eða hvort hin hefðbundnu viðhorf stóriðjunnar muni ráða för