9. jan. 2012

Ríkisstjórnin og þróun lífs á jörðinni

Allir sem hafa tekið þátt í félagsstarfi eða öðrum rekstri vita að skýr markmið og stefna eru grundvöllur að góðum árangri. Það sama hlýtur að gilda í stjórnmálum, ekki síst hjá ríkisstjórninni. Þess vegna verð ég stundum undrandi yfir þversögnum í málflutningi ráðherra ríkisstjórnarinnar. Tökum nýlegt dæmi.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flutti ágætt áramótaávarp að kvöldi gamlársdags. Hún nýtti meðal annars tækifærið til að fjalla um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga:

,,Áhrifa hlýnunar loftslags er þegar farið að gæta hér sem annars staðar og vísindamenn telja að þessi hlýnun muni hafa greinileg áhrif næstu þrjá til fimm áratugi. Það mun skipta sköpum fyrir framþróun lífs á jörðinni hvernig okkur tekst á næstu tíu árum að stemma stigu við þessum loftslagsbreytingum. Mikilvægt er að við Íslendingar tökum þessi mál föstum tökum.“

Þarna talaði forsætisráðherra sem veit hvað klukkan slær: Hér var um framþróun lífs að tefla og málið þyrfti að taka föstum tökum! Og ég gladdist mjög – í skamma stund. Fljótlega rifjaðist upp fyrir mér að tveimur dögum fyrr hafði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fagnað því sérstaklega í viðtali við Viðskiptablaðið að Ísland stefndi óðfluga í átt til þess að verða olíuríki. Og það er ekki lengra síðan en í september sem Alþingi staðfesti lög um leit og vinnslu olíu í íslenskri lögsögu.

Þannig að þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi talað skýrt um áramót þá er ég engu nær um stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Er ætlunin að taka loftslagsmál föstum tökum og verja framþróun lífs á jörðinni eða ætlar hún að stefna að olíuvinnslu við Ísland og auka þannig gríðarlega losun gróðurhúsalofttegunda? Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum frekar en öðru.