2. jan. 2012

Markverðustu umhverfismálin 2011

Gleðilegt ár lesendur góðir og takk fyrir það liðna. Það bar margt til tíðinda á vettvangi umhverfismála á nýliðnu ári. Ég renndi yfir fréttir ársins í fljótheitum og að mínum dómi bar þetta hæst:

1. Upplýsingar um litla arðsemi virkjana, t.d. Kárahnjúkavirkjunar, erfiða fjárhagsstöðu OR vegna fjárfestinga í jarðvarmavirkjunum og takmörkuð jákvæð áhrif álvera á íslenska hagkerfið vegna lágs raforkuverðs og erlends eignarhald sigldu stóriðjustefnunni í strand.

2. Friðlýsing Langasjávar og hluta Eldgjár varð að veruleika og svæðin urðu hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

3. Öðrum áfanga Rammaáætlunar lauk með tillögum sem gera meðal annars ráð fyrir tuttugu svæðum í verndarflokk, þar á meðal Þjórsárverum, Jökulsá á Fjöllum, efsta hluta Tungnaár, Markarfljóti, Djúpá og Hólmsá, Kerlingafjöllum, Bitru, Grændal og Gjástykki. Ekki tókst að leggja málið fyrir Alþingi fyrir áramót eins og til stóð.

4. Orkuveita Reykjavíkur dældi affallsvatni frá Hellisheiðarvirkjun niður í sprungur með þeim afleiðingum að þúsundir smáskjálfta mældust og einn stór sem reyndist 3,8 á Richter. Hvergerðingar mótmæltu og lagaprófessor taldi að taka þyrfti til skoðunar hvort manngerðir jarðskjálftar brytu gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi heimilis.

5. Alþingi staðfesti lög um olíuleit og olíuvinnslu án umræðu um umhverfisáhrif. Lögin gera ekki ráð fyrir mengunargjöldum þrátt fyrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda.

6. Árósasamningurinn um umhverfisvernd og mannréttindi var leiddur í lög. Samningurinn var undirritaður 1998 og síðan þá hefur fullgilding hans beðið.

7. Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu um sorpbrennslur sem reyndist áfellisdómur yfir vanrækslu í stjórnsýslu umhverfismála til fjölda ára.

8. Fjöldi hreindýra drapst í girðingum við Flatey á Mýrum og Velferð búfjár og Náttúruverndarsamtök Austurlands stóðu vaktina og beittu sér fyrir úrbótum í þessu sorglega máli.

9. Í september skrifuðu fjármálaráðherra og innanríkisráðherra undir viljayfirlýsingu um eflingu almenningssamgangna á höfuborgarsvæðinu. Ætlunin var að verja milljarði króna af kolefnisgjaldi til verkefnisins. Tillaga fjármálaráðuneytisins í fjárlögum 2012 gerði hins vegar ráð fyrir einungis 150 milljónum, en sú upphæð hækkað í 350 milljónir í meðförum Alþings.

10. Kastljós kom upp um mikla mengun frá álþynnuverksmiðju Becromal á Akureyri þegar vítissótamengað vatn fór í sjóinn. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins viðurkenndi að forsvarsmenn verksmiðjunnar hefðu lengi vitað að hreinsunarbúnaður hennar virkaði ekki sem skyldi. Hann hætti störfum skömmu síðan.