28. des. 2011

Frú forseti, forsætisráðherra og biskup

Árið 2012 verður merkilegt í jafnréttisbaráttunni hér á landi fyrir þær sakir að þá munu konur gegna embættum forsætisráðherra, forseta og biskups. Ég fullyrði þetta í ljósi fréttar Stöðvar 2 um að margar konur séu nefndar til sögunnar sem næsti biskup. Þessar eru nefndar: Arnfríður Guðmundsdóttir, Sigríður Guðmarsdóttir, Jóna Hrönn Bolladóttir og Agnes M. Sigurðardóttir. Þetta eru allt konur sem gæfu kristnum aukið tilefni til að vera stoltir af kirkjunni sinni. Og auðvitað velur þjóðkirkjan sér konu sem biskup, annað væri pínlega vandræðalegt. Eða hversu margar konur hafa verið biskupar lútersku kirkjunnar hér á landi í nærri 500 ára sögu hennar? Ekki ein einasta. Case closed.

Nokkrar hafa verið nefndar sem mögulegir forsetaframbjóðendur á næsta ári, t.d. Salvör Nordal og Ragna Árnadóttir. Hópur græningja hefur haft áhuga á að hvetja umhverfisverndarsinna til framboðs til forseta næsta vor og þar eru fleiri konur nefndar en karlar. Að mínum dómi kemur eiginlega ekki annað til greina en að ráðdeildarsöm, hófsöm og íhugul kona taki við búinu á Bessastöðum þegar fjórða glystímabili Ólafs Ragnars lýkur. Ekki svo að skilja að karlinn hafi verið alslæmur, síður en svo. En hann er óneitanlega einn af tákngervingum áranna þegar við urðum af aurum apar. Endurnýjun á Bessastöðum er því eitt af mörgum skrefum sem þessi þjóð þarf að taka í átt til andlegrar endurhæfingar.

2012 verður því ár frúarinnar.