11. jan. 2012

Atlögunni að Grændal hrundið

Á liðnu ári veitti Orkustofnun Sunnlenskri orku leyfi til jarðhitaannsókna við Grændal í Ölfusi, þvert á álit sveitarfélagsins Ölfuss, Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytisins. Náttúrufræðistofnun hafði metið svæðið með verndargildi á heimsvísu sem verðskuldaði hámarks vernd. Landvernd mótmælti þessari ákvörðun í júní, Orkustofnun svaraði fyrir sig með fréttatilkynningu og við iðnaðarráðherra skrifuðumst á um málið í fjölmiðlum (Greinar 1, 2 og 3).

Þessi umræða hafði þau áhrif að í júlí beindi Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra fyrirmælum til Orkustofnunar um að útgáfa rannsóknarleyfa á svæðum sem Rammaáætlun fjallaði um skyldi frestað þangað til þingsályktunartillaga um áætlunina hefði verið afgreidd á Alþingi, eða í síðasta lagi til 1. febrúar 2012. Þar með var hálfur sigur unninn.

Bæjarráð Hveragerðis kærði svo ákvörðun Orkustofnunar til iðnaðarráðherra í ágúst. Og nú hefur unnist fullnaðarsigur í málinu því að bæjarráði Hveragerðis barst bréf í upphafi árs frá iðnaðarráðherra þar sem segir að ekki séu forsendur til áframhaldandi málarekstrar þar sem Sunnlensk orka óskaði sjálft eftir að leyfið yrði fellt úr gildi.

Þetta er góður sigur í baráttunni fyrir verndun dalanna fyrir ofan Hveragerði. Eins og ég hef áður fjallað um þá býr þetta svæði yfir gríðarlega miklu aðdráttarafli fyrir ferðamenn. Ég vann með ungum útlendingum í sumar sem komu hingað til lands til að vinna sjálfboðaliðastörf. Þau fóru tvær ferðir til að skoða náttúru Íslands á meðan þau dvöldu hérna, aðra á Gullfoss og Geysi og hina í Reykjadal, ofan Hveragerðis. Þau sögðu að Reykjadalur hefði verið hápunktur ferðarinnar, enda hefur hann upp á að bjóða heitan læk og mikla litadýrð.

Nú geri ég ráð fyrir að síðustu atlögunni að Grændal hafi verið hrundið. Orkufyrirtækjunum er orðið ljóst að þau fá ekki að leggja dalinn undir sig. Næsta skref er að bjarga Ölkelduhálsi (Bitru), í næsta nágrenni Grændals, undan virkjanaáformum Orkuveitu Reykjavíkur.