8. nóv. 2011

Stóriðjustefna á síðustu dropunum

Slétt 56% aðspurðra segjast hlynnt stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, tæp 18% eru andvíg hugmyndinni en rúm 26% taka ekki afstöðu samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir íslensk náttúruverndarfélög. Niðurstaðan kemur ekki á óvart því að fjöldi kannana hefur sýnt fram á vaxandi stuðning almennings við náttúru- og umhverfisvernd. Að mínu mati eru tvær megin ástæður fyrir auknum stuðningi almennings við þessi sjónarmið: Annars vegar andstaða við áframhald stóriðjustefnu og hins vegar augljósir vaxtarmöguleikar í ferðaþjónustu.

Líklega hefur andstaða við stóriðjustefnuna aukist að undanförnu vegna hinnar miklu efnahagslegu áhættu sem henni fylgir. Nú þegar eru 80% raforku seld stóriðju og þess vegna erum við nú þegar komin í þá stöðu að setja öll eggin í sömu körfuna. Eðlileg krafa um ráðdeild í efnahagsmálum hlýtur þess vegna að leiða til endaloka stóriðjustefnunnar. Auk þess er að renna upp fyrir flestum að efnahagsleg áhrif álvera hafa verið ofmetin. Í nýútgefinni Orkustefnu fyrir Ísland segir t.d. að árið 2009 hafi sjávarafurðir numið tæpum 30% af nettóútflutningi vöru og þjónustu, ferðaþjónusta tæpum 15% en ál og kísiljárn einungis tæpum 14%. Það er mjög lágt hlutfall miðað við þá fjárbindingu sem liggur í álverum og virkjunum, svo ekki sé minnst á þær fjárhagsábyrgðir og náttúrufórnir sem þjóðin hefur tekið á sig. Nýleg skýrsla Landsvirkjunar um efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi fyrirtækisins til ársins 2035 vekur einnig athygli á því hversu litlum efnahagslegum ávinningi stóriðjustefnan hefur skilað. Hér er nokkur dæmi:

,,Enn sem komið er hafa Íslendingar ekki náð að skapa raunverulega rentu af sinni auðlind.“

,,Þetta sýnir vel að þrátt fyrir stærð fyrirtækjanna sjálfra eru rekstraráhrif stóriðju á innlent hagkerfi fremur takmörkuð ef orkusalan er undanskilin, eða sem nemur um 0,2% að meðaltali á ári til hækkunar á hagvexti til ársins 2035.“

,,Ein og sér leggur framleiðsla málma, þ.e. stóriðjan, aðeins um 1,7% til landsframleiðslunnar við núverandi aðstæður, sem endurspeglar fyrst og fremst þá staðreynd að innlend framleiðsluþáttanotkun þessara fyrirtækja fyrir utan raforku er mjög takmörkuð.“

,,Og þar sem sú stefna hefur lengi verið ríkjandi hérlendis að selja raforku mjög nærri kostnaðarverði, sem m.a. endurspeglast í sögulegri lágri arðsemi Landsvirkjunar. … Séu þessar náttúruauðlindir raunverulegar auðlindir fyrir landið ætti það að endurspeglast í hárri arðsemi fyrirtækisins og arðgreiðslum. Ef arðsemin er í lægri kanti þess sem þekkist í almennum atvinnurekstri bendir það til þess að auðlindarenta sé annað hvort ekki til staðar eða renni til orkukaupans með lágu orkuverði.“

Á sama tíma og stóriðjustefnan á undir högg að sækja er mikill vöxtur hlaupinn í ferðaþjónustu. Reiknað er með að 75-100 þúsund fleiri erlendir ferðamenn sæki Ísland heim í ár en á liðnu ári og að þeir verði alls um 600.000. Gjaldeyristekjur af aukningunni einni gætu orðið um 30 milljarðar króna. Flest bendir til að ferðamönnum muni fjölga enn á næstu misserum, enda völdu bæði Lonely Planet og National Geographic Ísland nýverið mest spennandi ferðastað á komandi ári. Áhrif þessa á ferðaþjónustuna kunna að verða mikil. Jónas Kristjánsson skrifaði um þetta nýverið: ,,Að baki hvalrekanna er feiknarleg undiralda, sem mun skila sér í tugmilljörðum króna á næsta ári. Síðan verður eftirleikur, sem mun endast í fjölmörg ár. Fundin er atvinnugrein, sem mun standa undir aukinni atvinnu þjóðarinnar næstu árin. Án risavaxinna fjárfestingarskulda.“

Viðbrögð erlendra ferðamanna sem hingað koma draga heldur ekki úr væntingum þjóðarinnar til ferðaþjónustu. Morgunblaðið tók til dæmis nýverið viðtal við Jean De Lafonteine, 75 ára gamlan bandarískan ferðamann sem hefur ferðast til 62 landa. Vitnisburður hans undirstrikar hvers konar perla þetta land okkar er: ,,Íslensk náttúra er hreint út sagt ótrúleg. Fossarnir eru alveg sérstaklega fallegir. Ég hef séð marga fossa í Bandaríkjunum, en þeir jafnast ekkert á við fossana hér á Íslandi. Landslagið er stórbrotið og ég held að það sé mjög erfitt að komast í tæri við sambærilegar náttúruperlur og finna má hér á Íslandi annars staðar í heiminum.“

Íslenska fræðasamfélagið er nú á fullu að greina verðmætin sem felast í þessum náttúruperlum sem Jean De Lafonteine talar um. Ég sat til dæmis nýverið fróðlegan fyrirlestur Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósents við ferðamálafræði Háskóla Íslands, sem fjallaði um náttúru og ferðaþjónustu. Hún staðfesti að náttúran er helsta aðdráttarafl ferðamannalandsins Íslands. Samkvæmt könnun sem var gerð 2010 nefna 88% erlendra ferðamanna að náttúra Íslands hafi haft áhrif á ákvörðun um Íslandsferð að sumarlagi og 51% nefndu öræfin. Samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu frá 2008 ferðast 40% erlendra ferðamanna inn á hálendið.

Anna Dóra vakti athygli á að takmarkaðar rannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum virkjana á ferðaþjónustu og að ferðaþjónustan hafi ekki mótað sér stefnu um það hvernig hún vilji nýta landið og til hvaða markhópa hálendið eigi að höfða. Á sama tíma er lagt til í drögum að rammaáætlun að jarðhitavirkjun verði reist við Hágöngur á miðju hálendinu með tilheyrandi raflínum og vegagerð. Í nýlegu meistaraverkefni Victoriu Frances Taylor við Háskóla Íslands er vakin athygli á að íslensk víðerni minnkuðu um 68% á tímabilinu 1936 til 2010. Víðerni hálendisins eru því ekki óþrjótandi auðlind eins og sumir halda.

Á sama tíma og það rennur upp fyrir þjóðinni hversu dýrmæt auðlind náttúran er þá höktir stóriðjustefnan á síðustu dropunum. Stjórnmálamenn í öllum flokkum þurfa að taka tillit til þess og gæta betur að náttúruverndarsjónarmiðum, t.d. við afgreiðslu þingsályktunartillögu um Rammaáætlun.