19. okt. 2011

Svör Orkuveitu Reykjavíkur

Ég sendi forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur (OR) opið bréf á fimmtudag með spurningum um eitt og annað tengt jarðvarmavirkjunum á Hellisheiði. Þeir voru snarir í snúningum og svör bárust síðar sama dag. Þau eru birt í heild sinni neðst á síðunni. Ég geri eftirfarandi athugasemdir við svörin og mun senda OR fleiri spurningar sem vöknuðu við lestur þeirra:

1. Í svari OR segir að ekki sé hægt að útiloka neikvæð áhrif framkvæmda við fyrirhugaða Suðvesturlínu á vatnsból höfuðborgarsvæðisins, einungis draga úr líkum á þeim. OR metur það sem sagt sem svo að sala á raforku til álvers í Helguvík sé það mikilvæg að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins sé fórnandi.
Ég spurði OR hvort þessi afstaða til Suðvesturlína stangaðist ekki á við svohljóðandi umsögn fyrirtækisins um fyrirhugaða þjónustumiðstöð við Þríhnúkagíg: ,,Höfuðborgarbúar mega ekki missa vatnsból sín og er hætt við að ekki verði aftur snúið í kjölfar mengunarslyss á svæðinu.“ Í svari OR segir meginmun á þessum áformum þann að Suðvesturlína skapi tímabundna áhættu en þjónustumiðstöðin langvarandi áhættu. Ég ætla að spyrja OR um það hvar þessi línu sé dreginn, þ.e. hversu tímabundin framkvæmd þurfi að vera til að áhættan sé talin ásættanleg. Ætli hún sé dregin með stöðluðum matsaðferðum eða persónulegu mati starfsmanna OR?

2. Ég spurði OR hvort að í umhverfismati hefði verið gert ráð fyrir jarðskjálftum vegna niðurdælingar á vatni á Hellisheiði og ég spurði hver bæri fjárhagslega ábyrgð ef tjón hlytist af þessum manngerðu jarðskjálftum. Í svarinu segir að um þetta hafi ekki verið fjallað í umhverfismatinu og að án nánari athugunar á því treysti OR sér ekki til að kveða upp úr um bótaskyldu vegna hugsanlegs tjóns af skjálftunum. Í kvöldfréttum Rúv kom fram að hvorki Viðlagatryggingar né OR telja sér skylt að greiða tjón af völdum þessara jarðskjálfta.

3. Í þriðja lagi spurði ég um brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiði og um möguleg áhrif hennar á heilsu almennings á höfuðborgarsvæðinu, tæringu málma og endingartíma raftækja. OR svarði því til að vísindafólk innan OR hefði kynnt sér niðurstöður rannsókna á heilsufarsáhrifum brennisteinsvetnis í andrúmslofti og niðurstöður þeirra bentu til að ekki væri hætta á heilsutjóni vegna brennisteinsvetnis í þeim styrk sem það er í á höfuðborgarsvæðinu og að hið sama gildi um ástand raftækja. Tæknimenn RÚV virðast annarrar skoðunar ef marka má frétt RÚV frá 11. desember 2008. Einnig virðist ályktun OR ekki í fullu samræmi við niðurstöður meistaraprófsrannsókna við Háskóla Íslands um heilsufarsáhrif loftmengunar sem benda til aukinnar astmalyfja og hjartalyfja í tengslum við aukna brennisteinsvetnismengun. Ég ætla óska eftir upplýsingum um hvaða rannsóknir vísindamenn OR byggja sínar ályktanir á og ítreka spurningu mína um afstöðu OR til áhrifa brennisteinsvetnis á málma, t.d. á fasteignum.
Ég spurði líka hversu mikil aukning yrði á brennisteinsvetnismengun með tilkomu 90 megavatta virkjunar sem var gangsett nýverið og með tilkomu fyrirhugaðra virkjana í Hverahlíð og við Gráuhnúka. Í svari OR segir að mengunin muni aukast um 40% með nýgangsettri virkjun en þar segir ekkert um hinar virkjanirnar. Ég þarf að ganga á eftir því svari.
Fram kemur í svari OR að með loftgæðamælistöðvum OR í Hveragerði og Norðlingaholti hafi styrkur brennisteinsvetnis mælst undir sólarhringsheilsuverndarmörkum frá ársbyrjun 2010 og fram á mitt ár 2011. OR tekur ekki fram í svari sínu að styrkur brennisteinsvetnis mældist nokkrum sinnum yfir sólarhringsheilsuverndarmörkum í Reykjavík í mælistöðinni við Grensásveg, t.d. árið 2010 en þá fór styrkur brennisteinsvetnis tvisvar yfir mörkin. Þetta kemur t.d. fram Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um virkjun við Gráhnúka.
Þá segir í svar OR að fyrirtækið sé nú að þróa aðferð til hreinsunar brennisteinsvetnis úr útblæstri. Við þetta vaknar spurningin hvers vegna OR notast ekki við þá tækni sem þegar er til og hefur verið notuð við að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri, t.d. í Bandaríkjunum, Japan og á Ítalíu. Gæti verið að OR hafi ekki efni á að beita slíkri tækni vegna þess hve orka frá Hellisheiðavirkjun er seld á lágu verði til stóriðju?

4. Í fjórða lagi spurði ég hvort nýgangsett 90 megavatta virkjun á Hellisheiði væri ekki offjárfesting í ljósi þess að engin eftirspurn væri eftir þeirri orku sem hún framleiðir. Og ég spurði hversu mikil áhrif þessi offjárfesting hefði haft til hækkunar á orkuverði til almennings. OR svaraði því til að þessi orka væri þegar seld. Í ljósi fréttar á heimasíðu OR um að rafmagnið frá Sleggjunni fari að mestu til Norðuráls á Grundartanga þá ætla ég að forvitnast um það hjá OR hvað átt er við með þessu orðalagi.


Svör Orkuveitu Reykjavíkur í heild sinni:

1. Eins og fram kemur í umsögn OR um Suðvesturlínur stendur fyrirtækinu langt í frá á sama um framkvæmdirnar. Þrátt fyrir þær mótvægis- og öryggisaðgerðir, sem OR leggur til í umsögninni, er ekki hægt að útiloka neikvæð áhrif framkvæmdanna á vatnsbólin, einungis draga úr líkum á þeim.

Sá meginmunur er á áformum um Suðvesturlínur og við Þríhnjúka að hin fyrrnefnda skapar tímabundna áhættu fyrir vatnsverndarsvæðin. Áform um uppbyggingu ferðaþjónustu við Þríhnúka fyrir hundruð þúsunda gesta á ári með tilheyrandi umferð er viðvarandi og hugsanlega sívaxandi áhætta.
Í umsögn um mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína kom Orkuveita Reykjavíkur fram með tilmæli um að gerðar yrðu strangar umhverfiskröfur við framkvæmdina. Í áformum um Suðvesturlínu er gert ráð fyrir að flytja línu af brunnsvæði vatnsverndar, sem er augljóslega viðkvæmasti hluti hvers vatnsverndarsvæðis, yfir á fjarsvæði. OR taldi það kost þrátt fyrir hina augljósu áhættu af framkvæmdinni.
Ábendingar OR voru þessar:
a) Öll tæki séu skoðuð m.t.t. leka í samræmi við þá skoðun sem OR lætur framkvæma á tækjum sem notuð eru á vatnsverndarsvæðum. Þessi skoðun sé framkvæmd af viðurkenndri skoðunarstöð.
b) Eftirlit sé með tækjum sem notuð eru á vatnsverndarsvæði á framkvæmdatíma, og skýr heimild að vísa tækjum af svæðinu uppfylli þau ekki kröfur um mengunarvarnir.
c) Sérútbúin olíuáfyllingarsvæði verði skilgreind á vatnsverndarsvæðum og sé frágangur vegna lekavarna i samráði við heilbrigðiseftirlit. Engin meðhöndlun olíuvara verði leyfð utan þessara svæða, strangt eftirlit verði með olíuflutningum um vatnsverndarsvæði og ekki flutt meira i hverri ferð en þörf er á.
d) Aðilar hafi tiltæk mengunarvarnarsett við framkvæmdir og fylgi leiðbeiningum um viðbrögð við mengun, LBQ-240.
e) Eftirlit sé með annarri umferð á slóðum innan vatnsverndarsvæðis á framkvæmdatíma og gerðar ráðstafanir til að hindra óviðkomandi umferð.
f) Setja skýrar reglur um hámarkshraða ökutækja á vatnsverndarsvæðum.
g) Tilnefndur verði tengiliður frá OR gagnvart framkvæmdaeftirliti á framkvæmdatíma og tryggt að tengiliður sé ávallt upplýstur um allt það sem Iýtur að vatnsvernd.
Þá var á því hnykkt að tryggt þyrfti að vera að grunnvatni stafaði ekki hætta af galvanhúð á möstrum.
Í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismatið segir meðal annars:
Stofnunin leggur áherslu á ítarlegt samráð Landsnets við viðkomandi heilbrigðiseftirlit og bendir á að Landsnet sem framkvæmdaraðili ber ábyrgð á fyrirhuguðum framkvæmdum og að þeim öryggis- og mótvægisaðgerðum sem fyrirtækið boðar í matsskýrslu verði fylgt í hvívetna sem og eftirliti. Í því sambandi vill Skipulagsstofnun sérstaklega nefna mikilvægi þess að framkvæmdir á grann- og brunnsvæðum fari ekki fram á tímabilinu frá byrjun nóvember til loka mars, tekið verði mið af reglugerðarákvæðum um bann við geymslu hættulegra efna innan viðkomandi vatnsverndarsvæða, að virkt eftirlit verði haft með ástandi vinnutækja og að línuslóðir verði lokaðar almennri umferð. Þá þurfi að tryggja að efnasamsetning galvanhúðar mastra verði prófuð í verksmiðju framleiðanda af viðurkenndum eftirlitsaðila og að fyrir liggi staðfest vottun hans.

2. Það er þekkt að niðurdæling og aukinn vatnsþrýstingur í sprungukerfum minnkar núningsviðnám í brotflötum bergsins þannig að það losnar um þá spennu, sem byggst hefur upp í berginu með þeim afleiðingum að smáskjálftar myndast. Almennt er talið að þessir manngerðu skjálftar séu við okkar aðstæður ekki líklegir til þess að leysa úr læðingi stærri skjálfta og að tíðni slíkra smáskjálfta muni með tímanum verða svipuð þegar jafnvægi kemst á og áður en dæling hófst.
Niðurdæling niður fyrir grunnvatnsstrauma á svæðinu er skilyrði, sem sett er í starfsleyfi virkjunarinnar. Ekki var fjallað um hugsanlega smáskjálftavirkni við mat á umhverfisáhrifum eða í starfsleyfinu. Án nánari athugunar á því, treystir OR sér ekki til að kveða upp úr um bótaskyldu vegna hugsanlegs tjóns af skjálftunum. Rétt er að benda á að OR er ekki kunnugt um að neinn skjálfti, sem rekja má til niðurdælingarinnar, hafi verið af þeim styrk í byggð að fasteignir, sem uppfylla kröfur byggingareglugerðar, ættu að verða fyrir tjóni.
Rétt er að benda á að Orkustofnun vinnur nú, að frumkvæði iðnaðarráðuneytisins, að minnisblaði um skjálftahviðurnar, sem orðið hafa á Hellisheiði frá því um miðjan september. Það gæti legið fyrir á morgun.

3. OR hefur sett upp loftgæðamælistöðvar í Hveragerði og á Norðlingaholti. Þær eru nú í umsjá Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Frá því ársbyrjun 2010 fram á mitt ár 2011 hefur styrkur brennisteinsvetnis í þessum mælistöðvum verið undir 24 klst. heilsuverndarviðmiði samkvæmt reglugerð nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Það er 50 míkrógrömm á rúmmetra andrúmslofts (µg/m3). Viðmið Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar er 150 µg/m3.
Brennisteinsvetni frá jarðgufuvirkjunum eykst í hlutfalli við aukin afköst. 90 megavatta aflaukning Hellisheiðarvirkjunar mun því að öðru óbreyttu auka útblástur brennisteinsvetnis frá virkjuninni um u.þ.b. 40%. Rétt er þó að geta þess að tilhneiging er til þess á Hengilssvæðinu að það dragi úr magni jarðhitagastegunda í gufunni eftir því sem líður á nýtinguna.
Vísindafólk innan OR hefur kynnt sér niðurstöður rannsókna á heilsufarsáhrifum brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Niðurstöður þeirra benda ekki til að hætta sé á heilsutjóni vegna brennisteinsvetnis í þeim styrk sem það er í á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ástand raftækja.
OR á nú í samstarfi við fært vísindafólk í því skyni að þróa aðferð til hreinsunar brennisteinsvetnis úr útblæstri. Markmiðið er að uppfylla ákvæði reglugerðar 514/2010 frá umhverfisráðuneytinu, um styrk brennisteinsvetnis.

4. Orka sú sem OR framleiðir í Sleggjunni, nýrri 90 MW aflstöð við Hellisheiðarvirkjun, er þegar seld með bindandi langtímasamningi, sem gerður var áður en ákveðið var að ráðast í framkvæmdirnar.
Eftirlit með verðlagningu á sérleyfisstarfsemi OR (dreifing raforku og hitaveita) er í höndum Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis. Löngu tímabærar verðhækkanir OR á orku hafa hlotið skoðun hjá þessum aðilum.

(Pistillinn var fyrst birtur á dv.is 19.10.2011)