20. okt. 2011

Össur, Kolbrún og Helen Lovejoy

Í hvert skipti sem eitthvað bjátar á í þáttunum um Simpsons fjölskylduna þá hrópar Helen Lovejoy stundarhátt: ,,Won´t Somebody PLEASE Think of the Children.“ Nú hafa þau Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tekið upp sama hátt, nema hvað að þeim virðist umhugaðra um sum börn en önnur og æpa: ,,Í guðs bænum vill einhver hugsa um broddborgarabörnin.“ Þetta kyrja þau í hvert sinn sem einhver vogar sér að gagnrýna ráðningar vina og vandamanna í mikilvægar stöður á vegum hins opinbera.

Í morgun birtist pistill eftir Kolbrúnu í Morgunblaðinu sem er greinilega skrifaður af nokkurri vandlætingu. Ó, þessi fáfróði og stjórnlausi skríll: ,,Í íslensku samfélagi stendur yfir stöðug leit að hugsanlegum skúrkum. Það er mjög tilviljanakennt hver verður fyrir valinu. Yfirleitt er það bara einhver sem þykir liggja vel við höggi. Páll Magnússon er fórnarlamb októbermánaðar. Ekki er ljóst hver sök hans er nema menn telji það glæpsamlegt athæfi að vera framsóknarmaður og hafa unnið með fyrrverandi ráðherrum flokksins.“

Og svo: ,,Því miður er það of oft þannig að látið er undan þeim sem skrækja hvað hæst án þess að hafa skynsamlegan málstað með sér. … Og þótt stjórnarþingmenn og bloggkórar taki undir með honum sýnir það ekki heldur að upphrópanirnar séu byggðar á skynsamlegum rökum. … Stjórn Bankasýslunnar og Páll Magnússon eiga ekki að láta lýðskrumara og bullara raska ró sinni.“
Ef Kolbrúnu er svona umhugað um sæmd og heiður Páls Magnússonar þá hefði henni verið nær að eyða þessum fáu orðum í að færa rök fyrir skoðun sinni. Kolbrún hefði til dæmis getað reynt að færa rök fyrir því að ráðningin stæðist 6. gr. laga um Bankasýslu ríkisins, stjórnsýslulög og eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. En hún velur leið þess sem á í vök að verjast í rökræðunni og reynir í örvæntingafullri tilraun að smána andstæðinginn: lýðskrumari – bullari – skrækja – athyglissjúkur – arfavitlaus - bloggkórar!

Kolbrún hefur áður æpt til varnar broddborgarabörnum. Þá hafði Árni Mathiesen ráðið fyrrverandi aðstoðarmann dómsmálaráðherra í starf héraðsdómara þótt hann væri ekki talinn meðal hæfustu umsækjenda. Þá skrifaði Kolbrún í 24 stundir: ,,Umræðan á Íslandi verður mjög oft harðskeytt, persónuleg og gróf. … Það er erfitt að ætla að annað en að hamagangurinn í fjölmiðlum og á bloggi stafi af því að Þorsteinn er sonur Davíðs Oddssonar.“ Þremur árum síðar féll dómur í Hæstarétti sem staðfesti að ráðningin stóðst ekki lög. Í dómi Hæstaréttar sagði ekkert um faðerni.

Svo skemmtilega vill til að Össur Skarphéðinsson hefur af sömu tilefnum hrópað í anda Helen Lovejoy: ,,Í guðs bænum vill einhver hugsa um broddborgarabörnin.“ Nú nýverið sagði hann Pál Magnússon grátt leikinn í Bankasýslumálinu og í máli Þorsteins Davíðssonar sagði Össur: ,,Sem pólitískur faðir sem á börn sem eru að vaxa úr grasi þá renna mér til rifja þær hörðu árásir sem Þorsteinn Davíðsson sætir út af því einu að hann er sonur föður síns.“ Út af því að hann er sonur föður síns? Nei, Össur, þetta hafði ekkert með það eða börnin þín að gera. Ráðningin var gagnrýnd vegna þess að dómsmálaráðherra hafði brotið stjórnsýslulög. Þú ert ekki bara ,,ráðherraræfill á plani“ eins og þú orðar það sjálfur – þú ert ráðherraræfill á frekar lágu plani.

(Pistillinn var fyrst birtur á dv.is 20.10.2011)