23. okt. 2011

Græn framfaramál á Alþingi

Nýverið hafa þingmenn lagt fram á Alþingi tvö frumvörp og eina þingsályktunartillögu sem stuðla að framförum á sviði umhverfismála. Frumvörpin og tillögurnar fjalla um refsingar fyrir náttúruspjöll, frumkvæðisskyldu stórnvalda í að upplýsa um umhverfismál og stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Þá er ónefnd þingsályktunartillaga um eflingu græna hagkerfisins sem bíður umfjöllunar hér þar til síðar.

Þingsályktunartillaga um Höfsjökulsþjóðgarð gerir ráð fyrir að umhverfisráðherra verði falið að vinna að stofnun þjóðgarðs árið 2013. Innan þjóðgarðsins yrði jökullinn sjálfur og aðliggjandi svæði, t.d. Þjórsárver og Kerlingafjöll. Einnig er hvatt til þess að litið verði til Austari-Jökulsár og Vestari-Jökulsár sem hluta af þjóðgarðinum. Þessi tillaga er mjög góð og verði hún samþykkt er þjóðin komin skrefinu nær að eignast hálendisþjóðgarð sem samanstæði af Hofsjökulsþjóðgari, Vatnajökulsþjóðgarði og Friðlandinu að fjallabaki. Slíkur þjóðgarður hefur verið baráttumál náttúruverndarhreyfingarinnar um langt skeið.

Frumvarp til breytinga á lögum um upplýsingarétt um umhverfismál er lagt fram í kjölfar úttektar umhverfisnefndar Alþingis sem farið var í eftir að upp komst um díoxínmengun frá sorpbrennslustöðvum. Frumvarpið leggur skyldur á herðar stjórnvöldum að hafa frumkvæði að því að veita óumbeðnar upplýsingar og viðvaranir vegna mengunarhættu. Þetta er mikið framfaramál og til að mynda í anda ályktunar Félags umhverfisfræðinga frá því í febrúar á þessu ári: ,, Félagið minnir einnig á mikilvægi frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar vegna mengunarhættu. Frumkvæðisskyldan hefur verið staðfest af Mannréttindadómstól Evrópu sem túlkar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu á þann hátt að stjórnvöldum beri skylda til að upplýsa íbúa um mengun sem geti hugsanlega haft áhrif á líf og heilsu svo íbúar geti tekið upplýsta ákvörðun um búsetu á menguðum svæðum.“

Í frumvarpi um refsingar fyrir náttúruspjöll er lagt til að refsingar fyrir akstur utan vega verði hertar. Lagt er til að þegar stórfelld spjöll verða á náttúrunni skuli beita sektum að lágmarki 250.000 kr. eða fangelsi allt að fjórum árum. Einnig verður heimilt að gera upptæk ökutæki sem eru notuð til aksturs utan vega . Með þessu er dómstólum fengið aukið rými til að beita harðari viðurlögum við alvarlegustu tilfellum akstur utan vega. Það er fagnaðarefni, enda alveg ljóst að stjórnsýsla umhverfismála hér á landi hefur verið allt of rög við að beita refsingum til að sporna við brotum á náttúru- og umhverfisverndarlöggjöfinni.

Það er rétt að hrósa þeim þingmönnum sem eru flutningsmenn þessara tillagna. Þeir eru í stafrófsröð:

Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Mörður Árnason, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Þór Saari, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman.

(Pistillinn var fyrst birtur á dv.is 23.10.2011).