5. okt. 2011

Bankasýslan þvert á álit Umboðsmanns

Helgi Seljan tók viðtal við Þorstein Þorsteinsson, stjórnarformann Bankasýslunnar, í Kastljósi kvöldsins og spurði hann meðal annars út í ráðningu Páls Magnússonar í starf forstjóra stofnunarinnar. Þar sagði Þorsteinn að Páll hefði sem aðstoðarmaður ráðherra verið nógu valdalítill í viðskiptaráðuneyti Finns Ingólfssonar og Valgerðar Sverrisdóttur til að hafa komið óflekkaður frá því starfi. Skömmu síðar komst Þorsteinn svo í þversögn við sjálfan sig þegar hann sagði Pál hafa verið svo valdamikinn í ráðuneytinu við setningu laga um fjármálamarkaðinn að það hefði talist til reynslu sem nægði til að uppfylla hæfisreglur um forstjóra bankasýslunnar. Valdamikill eða valdalítill? Það er greinilega spurning sem er enn ósvarað í huga stjórnarformannsins.

Hæfisreglan hljóðar svo í lögum um Bankasýslu ríkisins: ,,Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum.“ Í viðtalinu sagði Þorsteinn: ,,Páll uppfyllir þau (hæfisskilyrði laga) í og með að hann hefur verið í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu og verið þar aðstoðarmaður og meðal annars heyrir nú fjármálamarkaðurinn undir það ráðuneyti og undirbúningur laga og slíkt er þar.“ Það er fróðlegt að skoða þessi orð í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis í öðru umdeildu máli, þ.e. þegar Björn Bjarnason fól Árna M. Mathiesen að ráða fyrrverandi aðstoðarmann sinn í starf héraðsdómara. Um þá ráðningu sagði Umboðsmaður Alþingis meðal annars í áliti 30. desember 2008: ,,Ég dreg ekki í efa að reynsla úr slíku starfi aðstoðarmanns veiti innsýn í fjölmörg viðfangsefni sem getur komið að gagni í starfi héraðsdómara. Starf aðstoðarmanns ráðherra, þótt um sé að ræða dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur hins vegar þá sérstöðu að það er fyrst og fremst pólitískt starf og aðstoð við ráðherra í stefnumörkun og ákvarðanatöku í einstökum málum en ekki starf embættismanns að úrlausn stjórnsýsluverkefna á hlutlægum og lögfræðilegum grundvelli.“ Í fljótu bragði fæ ég ekki betur séð en að niðurstaða stjórnarformannsins gangi þvert á álit Umboðsmanns Alþingis og samkvæmt því hefði stjórn Bankasýslu ríkisins ekki átt að meta störf Páls í ráðuneytinu sem grundvöll sérþekkingar á banka- og fjármálum.

Í góðu viðtali Stöðvar 2 við Þorstein fyrir skömmu sagði hann að það væri rétt að Páll hefði ekki skorað hæst umsækjenda á sviði menntunar og starfsreynslu. En: ,,Hann stóð sig mjög vel í viðtölum, kom vel fyrir og fékk mjög góð meðmæli.“ Þessi rökstuðningur er vel þekktur við pólitískar ráðningar, t.d. beitti Árni Páll Árnason honum þegar hann réð Runólf Ágústsson í stöðu umboðsmanns skuldara. Runólfur sá sóma sinn í að segja starfinu lausu í kjölfar mikillar gagnrýni. Vonandi líður ekki á löngu þar til Páll Magnússon og Þorsteinn Þorsteinsson gera slíkt hið sama.

Að lokum hvet ég alla til að kynna sér þetta mál, m.a. á bankasysla.wordpress.com, og mótmæla þessari ráðningu, t.d. með því að senda formanni Bankasýslu ríkisins og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra tölvupóst. Ekki virðist veita af ef marka má yfirlýsingar fjármálaráðherra í fjölmiðlum. Hann segist treysta því að Páll hafi verið ráðinn á faglegum forsendum og að fjármálaráðherra beri enga ábyrgð á stofnuninni: ,,Nú er það þannig að hún er ekkert í mínum höndum. Þannig var um málið búið með lögum héðan frá alþingi að bankasýslan starfar alveg sjálfstætt og ráðherra má ekki og á ekki hafa nein áhrif á daglegan rekstur og störf þar.“ Samt sem áður segir í 2. gr. laga um Bankasýsluna að fjármálaráðherra skipi stjórn stofnunarinnar og: ,,Ákveði fjármálaráðherra í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið.“

Fjármálaráðherra er varla slík gunga og drusla (svo hans eigin orðséu notuð) að hann þori ekki að eiga orðastað við stjórnarformann Bankasýslu ríkisins.

(Pistillinn birtist fyrst á dv.is 5.10.2011).