7. sep. 2011

Röng ályktun ráðuneytis um áhrif Kárahnjúkavirkjunar

Spár vísindamanna um að lífríki Lagarfljóts myndi hnigna með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar eru að rætast. Rannsóknir Veiðimálastofnunar um mitt sumar sýndu fram á að tífalt fleiri fiskar veiddust í fljótinu áður en virkjunin var byggð og veiðibændur segja að þar hafi aldrei veiðst jafnlítið af fiski og nú.

Ástæðan fyrir þessu er sú að Jökulsá á Dal var veitt í Lagarfljót með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Við það hefur grugg aukist svo mikið að það hefur neikvæð áhrif á fæðu fisksins og sumir telja jafnvel að hann rati ekki lengur upp fljótið vegna þess. Rúv sagði í kvöld að óttast væri að fiskurinn lifði þessar breytingar ekki af.

Í kjölfar frétta Rúv af málinu ákvað ég að skoða hvað var sagt um Lagarfljótið í mati á umhverfisáhrifum og úrskurðum áður en Kárahnjúkavirkjun var byggð. Matsskýrsla Landsvirkjunar frá árinu 2001 reyndist sannspá: ,,Með veitu Jökulsár á Dal úr Hálslóni yfir til Lagarfljóts versna lífsskilyrði og göngufæri fyrir fiska í Lagarfljóti.“ Í skýrslunni kom fram að magn svifaurs myndi fjór- til fimmfaldast vegna þessa, vatnið myndi kólna um 0,5°C yfir sumarið og að aukning á svifaur gæti hamlað göngu fiska um fljótið. Þannig lá ljóst fyrir að lífríki Lagarfljóts væri ein af mörgum fórnum sem færa yrði fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Þann 1. ágúst árið 2001 lagðist Skipulagsstofnun gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga. Samkvæmt þágildandi lögum hefði niðurstaða Skipulagsstofnunar komið í veg fyrir að virkjunin yrði reist. Landsvirkjun varð því að kæra niðurstöðu stofnunarinnar til umhverfisráðherra til að fá henni hnekkt. Ráðuneytið fékk málið því til umfjöllunar 4. september og kvað upp úrskurð 20. desember þar sem úrskurður Skipulagsstofnunar var felldur úr gildi.
Það er fróðlegt að lesa þann kafla úrskurðar umhverfisráðherra sem fjallar um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á Lagarfljót. Á meðan matsskýrsla Landsvirkjunar lýsti því hvernig lífsskilyrði og göngufæri fyrir fiska myndi versna þá fullyrti umhverfisráðuneytið annað í úrskurði: ,,Vegna eðlis Lagarfljóts og lífríkis þess er það mat ráðuneytisins að breytingar á svifaur muni ekki valda miklum áhrifum á lífríki vatnsins.“ Það sem ég fæ ekki skilið eftir lesturinn er hvernig umhverfisráðuneytið gat komist að annarri niðurstöðu í þessum efnum en vísindamenn sem eru sérfræðingar á sviði vatnalíffræði. Ég fann til dæmis ekki vísanir í neinar rannsóknir sem gátu gefið ráðuneytinu ástæður til að draga fyrri niðurstöður í efa.

Í ljósi nýjustu upplýsinga hlýtur ráðuneytið að þurfa að svara því hvernig það komst að þeirri niðurstöðu að áhrif Kárahnjúkavirkjunar á lífríki Lagarfljóts yrðu ekki mikil.