26. sep. 2011

Pétur Blöndal: Óskynsamlegt að bæta við álverum.

Viðskiptalífið virðast loksins vera að komast niður á jörðina í umræðunni um álver. Fyrr á þessu ári voru einungis 4,1% forsvarsmanna stærri fyrirtækja þeirrar skoðunar að mesta tækifærið til verðmætasköpunar væri falið í ,,áliðnaði/stóriðju“, Landsvirkjun leitar að minni og fjölbreyttari kaupendum að raforku og nú nýverið hafa talsmenn viðskiptalífsins á Alþingi einnig kveikt á perunni. Að minnsta kosti sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í þingræðu nýverið: ,,Ég tel að álið sé orðið það stór hluti af efnahagslífi Íslands að það sé ekki endilega skynsamlegt að bæta við. Álútflutningurinn er orðinn töluvert meiri en sjávarútvegurinn og þá er komin ákveðin áhætta.“

Hér á landi er rúm 80% af framleiddri raforku seld til stóriðju, þar af að lang mestu leyti til álvera. Verði tvö álver reist til viðbótar, t.d. á Bakka og í Helguvík, þá fer hlutfallið í 90%. Auðvitað sér allt sæmilega skynsamt fólk að það stuðlar ekki að efnahagslegu öryggi þjóðarinnar að selja 80 eða 90% raforkuframleiðslunnar til einnar atvinnugreinar. Forhertustu ritstjórar, fréttastjórar, sveitarstjórnarmenn og þingmenn munu engu að síður halda áfram að krefjast fleiri álvera, þótt það gangi augljóslega gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Ísland er í 12. sæti á lista yfir stærstu álframleiðsluþjóðir heimsins. Og þá er ekki miðað við höfðatölu heldur heildarframleiðslu. Við framleiddum um 780.000 tonn árið 2009, sem er tæplega helmingi minna en álframleiðsla í Bandaríkjunum, sem er sú fimmta mesta í heimi. Verði tvö álver reist til viðbótar hér á landi má gera ráð fyrir að við færum langleiðina með að verða jafnokar Bandaríkjamanna í álframleiðslu og færum eflaust fram úr þjóðum eins og til að mynda Indverjum. Maður þarf ekki að vera tryggingastærðfræðingur eins og Pétur Blöndal til að átta sig á að slík þróun felur í sér hagstjórnarlegt harakiri fyrir 330.000 manna þjóð.