13. sep. 2011

Græningja á Bessastaði 2012

Forsetakosningar næsta sumar gefa íslenskum græningjum sögulegt tækifæri til að sameinast á pólitískum vettvangi. Ég geri ráð fyrir því að Ólafur Ragnar láti staðar numið eftir sextán ár á Bessastöðum.

Ólafur hefur eins og aðrir forsetar staðið sig vel á sumum sviðum en verr á öðrum. Sjálfur hef ég verið ánægður með frammistöðu hans í umræðu um loftslagsmál og hann virðist hafa komist í persónulegt samband við merkilega vísindamenn á því sviði. Ég var líka ánægður með ákvörðun hans í Icesave málinu og tel að þar hafi hann sýnt fram á mikið pólitískt innsæi. En forsetinn hefur verið óþarflega sólginn í pólitísk vígaferli eins og nýleg dæmi sanna og þörf hans fyrir athygli erlendra fjölmiðla hefur stundum verið á mörkum hins hlægilega. Á vettvangi umhverfismála hafa ýkjusögur hans af óþrjótandi íslenskri jarðorku farið töluvert í taugarnar á mér og áhugi hans á loftslagsmálum virðist stundum hafa verið meiri í orði en á borði. Svo eru það dansspor Ólafs í kringum gullkálfinn í góðærinu sem eru auðvitað ein og sér fullgild ástæða til að hann hverfi af Bessastöðum næsta sumar. Þjóðin þarf á því að halda að aðalleikarar bankabólunnar hverfi af vettvangi viðskipta og stjórnmála.

Þess vegna geri ég ekki ráð fyrir öðru en að nýr forseti íslenska lýðveldisins verði kosinn næsta sumar. Og í því liggur mikið tækifæri fyrir íslenska græningja til að koma málstað umhverfisverndar, hófsemdar og aukins lýðræðis á framfæri. Ef græningjar halda vel á spilunum gætu kosningarnar haft samskonar áhrif á málstað umhverfisverndar og kjör Vigdísar Finnbogadóttur hafði á málstað kvennréttindasinna á sínum tíma.

En um hvern gætu íslenskir græningjar sameinast sem frambjóðanda? Auðvitað koma fjölmargir til greina en í fljótu bragði koma þessi nöfn upp í hugann: Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Katrín Fjeldsted, Ómar Ragnarsson og Guðmundur Páll Ólafsson. Hverjum gleymi ég?