26. ágú. 2011

Virkjanakapphlaupið er hafið

Finnur Sveinbjörnsson birti fróðlega grein í Fréttablaðinu í vikunni. Þar fjallar hann um skýrslu um efnhagsleg áhrif Landsvirkjunar sem birt var í sumar, framtíðarhorfu fyrirtækisins og um stöðu raforkuframleiðslu í landinu.

Finnur bendir á að Landsvirkjun sé stórskuldugt fyrirtæki vegna Kárahnjúkavirkjunar, en með mikla möguleika ef vel tekst til við að semja um hækkun orkuverðs til stóriðju á komandi árum. Það telur hann bestu leiðina til að auka arðsemi fyrirtækisins, enda sýni útreikningar í skýrslu Landsvirkjunar að eftir nokkur ár geti fyrirtækið greitt um 50 milljarða króna í arð og tekjuskatt ár hvert án þess að ráðast í frekari virkjanir.

En Landsvirkjun virðist hins vegar hafa mikinn áhuga á að ganga rösklegar til verks og tvöfalda orkuframleiðslu sína næstu fimmtán árin. Finnur bendir á að það hefði í för með sér meiri fjárfestingar og umsvif en margir átta sig á og það gæti orðið ávísun á enn eitt þensluskeiðið með tilheyrandi efnahagsvanda. Skynsamlegra væri að mati Finns að fara í uppbyggingu næstu þrjú til fimm árin og láta svo staðar numið. Hann leggur jafnframt til að framtíðar arðgreiðslur Landsvirkjunar renni í auðlindasjóð sem fjárfesti eingöngu erlendis. Ég get tekið undir allt þetta, nema hvað að mér þætti eðlilegra að arðurinn yrði notaður til að lækka skuldir ríkissjóðs og lækka skatta á almenna launþega.

Það sem vakti einna helst athygli mína í grein Finns var tilvitnun í Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Landsvirkjunar, í nýlegu útvarpsviðtali: ,,Að fólki finnist að Landsvirkjun sé framkvæmdaglöð. Jú, það getur hún vel verið. En Landsvirkjun er nú líka orkuframleiðandi og það er samkeppni um orkuframleiðslu þannig, að hérna, ef að við myndum hverfa af einu svæði, þá bara kemur einhver annar inn, þannig að það er náttúrulega í rauninni gallinn. Hvað náttúrufar snertir, þá er það auðvitað ákveðinn ókostur.“  Þarna segir Ragna hreint út að orkufyrirtækin séu á fullu í landnámi til að tryggja sér sem flesta virkjanakosti. Hinn augljósi ókostur við þetta er sá að það er enginn sem hefur heildarsýn á þessa hluti og enginn vinnur eftir vel skipulagðri áætlun. Hér er það bara frumskógarlögmálið sem gildir, fyrstur kemur fyrstur fær. Enda bendir Finnur á það í grein sinni að viðbúið sé að orkuframleiðendur bítist um vinnslusvæðin og hver þeirra vilji virkja sem hraðast og mest. Orð skrifstofustjóra Landsvirkjunar staðfesti að það sé fyllsta ástæða til að óttast þetta.

Við vitum hvernig fasteignamarkaðurinn þróaðist hér á landi síðustu ár fyrir hrun. Þá byggðu verktakar hver í kapp við annan og enginn hafði yfirsýn yfir raunverulega húsnæðisþörf í landinu. Afleiðingin varð bóla sem sprakk með hörmulegum efnahagslegum afleiðingum. Nú virðist stefna í sama farið hjá raforkuframleiðendum því samkvæmt tillögum að rammaáætlun verður hægt að ráðast í virkjanaframkvæmdir á næstu árum sem eru á pari við rétt tæplega þrjár Kárahnjúkavirkjanir.

Ekkert stjórnvald virðist líklegt til að greina möguleg heildaráhrif virkjanakapphlaupsins á hagkerfið. Enn ólíklegra er að eitthvert stjórnvald muni treysta sér til að taka í taumana. Hér stefnir því í enn eina efnahagslegu kollsteypuna.