6. júl. 2011

Kristján Már Unnarsson og gullmyllurnar

Kristján Már Unnarssonar, fréttastjóri Stöðvar 2 og áhugamaður um verklegar framkvæmdir, var heldur yfirlýsingaglaður í frétt um Búðarhálsvirkjun í kvöld. Hann lauk fréttinni á þessari yfirlýsingu: ,,Hér er því að verða til enn ein gullmyllan í safni Landsvirkjunar."

Þetta er nokkuð merkileg yfirlýsing í ljósi upplýsinga sem voru áréttaðar núna nýverið í skýrslu um efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til 2035 sem GAMMA vann fyrir Landsvirkjun. Þar segir á bls. 13: ,,Sú stefna hefur lengi verið ríkjandi hérlendis að selja raforku mjög nærri kostnaðarverði, sem m.a. endurspeglast í sögulegri lágri arðsemi LV. ... Ef arðsemi er í lægri kanti þess sem þekkist í almennum atvinnurekstri bendir það til þess að auðlindarenta sé annað hvort ekki til staðar eða renni til orkukaupans með lágu orkuverði."

Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, vakti athygli á lágri arðsemi Landsvirkjunar í leiðara í liðinni viku: ,,Það jákvæða við núverandi stjórn Landsvirkjunar er að stjórnendurnir gera sér augsýnilega grein fyrir miklum möguleikum fyrirtækisins og hyggjast ekki selja orkuna ódýrt eins og raunin var með forvera þeirra. Samningurinn við Alcoa vegna álversins í Reyðarfirði hættir ekki að vekja furðu."

En fréttastjóri Stöðvar 2 lætur staðreyndir ekki flækjast fyrir þegar hann flytur þjóðinni virkjanaboðskapinn: ,,Hér er því að verða til enn ein gullmyllan í safni Landsvirkjunar." Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í samfélaginu með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag. Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki náð að rækja það hlutverk í aðdraganda bankahrunsins. Í skýrslunni segir að í aðdraganda bankahrunsins hafi fjölmiðlar átt stóran hlut í því hve umræða um fjármálafyrirtækin var bæði umfangsmikil og lofsamleg. Fyrrverandi forstöðumaður fréttasviðs Stöðvar 2 sagði fjölmiðlamenn á Stöð 2 hafa tekið þátt í því að tala markaðinn upp, enda smitaðir af stemningunni í samfélaginu.

Það er vonandi að fjölmiðlafólk hafi lært eitthvað af því sem miður fór í þeirra störfum í bankabólunni. En ég er þó hóflega bjartsýnn á það miðað við nýlega umfjöllun fjölmiðla um skýrslu Landsvirkjunar um framtíðarsýn fyrirtækisins. Fjölmiðlar voru svo lofsamlegir í umfjöllun sinni að meira að segja forstjóri Landsvirkjunar lýsti yfir undrun sinni í viðtali við Smuguna: ,,Sú hlið sem margir fjölmiðlar kusu að birta var mjög einhliða.“ Það er líklega kominn tími á naflaskoðun á ritstjórnum fjölmiðla þegar forstjóri Landsvirkjunar er farinn að kvarta yfir of lofsamlegri umfjöllun um fyrirtækið.