21. maí 2011

Samfélagssáttmáli Styrmis Gunnarssonar um náttúruvernd

Í Sunnudags Mogganum birtist ljómandi góð grein eftir Styrmi Gunnarssonar um samfélagssáttmála um náttúruvernd. Ég var orðinn svo vanur að vera ósammála Styrmi að lestur greinarinnar kom mér mjög þægilega á óvart. Svona næstum eins þægilega á óvart og leiðari Daviðs Oddssonar um dýravernd, sem ég álít eina bestu hugvekju um umhverfisvernd sem ég hef lesið. Báðir þessir pistlar undirstrika það sem ég vissi að umhverfisvernd tilheyrir hvorki vinstri né hægri væng stjórnmálanna, þó svo að hér á landi hafi vinstri menn reynst trúrri umhverfisverndarstefnunni en hægri menn.

Grein Styrmis er reyndar ekki bundin við náttúruvernd, því að margt sem hann nefnir í pistlinum gæti hæglega flokkast undir hugmyndir um sjálfbæra þróun, t.d. beint lýðræði, opna og gagnsæja stjórnsýslu, hóflegan efnamun, mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hógværð í sjálfsmati og hærra gjald fyrir nýtingu á öllum auðlindum í þjóðareign. Allt þetta hljómar vel í eyrum græningjans.

Um náttúruverndina segir Styrmir að hægt eigi að vera að ná sátt í þeim efnum sem öðrum. Svo segir hann: ,,Allir þeir sem ferðast um Ísland og óbyggðir þess hljóta að hrífast af landinu og náttúru þess. Finnist manni skorta á tilfinningu hjá ungu fólki fyrir sögu lands okkar og þjóðar er bezta leiðin til þess að bæta úr því að fara með það unga fólk upp á miðhálendi Íslands og kynna fyrir því hvíta jökla, svarta sanda, fagurblá fljót og beljandi jökulár. Eða nyrzt á Strandir. Hver vill eyðileggja þessa fegurð með framkvæmdum?
Þess vegna er ég andvígur því að leggja vegi um hálendið eins og hugmyndir voru um fyrir nokkrum árum eða byggja þar hótel eins og lagt var til. Þess vegna er ég andvígur öllum framkvæmdum, hvaða nafni sem sem nefnast í Þjórsárverum. Og andvígur því að nokkrar frekari framkvæmdir verði yfirleitt á miðhálendi Íslands." Ég get hæglega tekið undir þessi orð og reyndar er mikill samhljómur í þeim og tillögum mínum til Stjórnlagaráðs um ,,forever wild" ákvæði fyrir hálendið.

En svo skilja leiðir þegar Styrmir ritar: ,,En á sömu forsendum skil ég heldur ekki andstöðu við frekari virkjanir í neðri hluta Þjórsár eða við frekari nýtingu þeirra virkjana sem fyrir eru á Þjórsársvæðinu þar sem þess er kostur. Það er líka umhugsunarefni hvort aukin áherzla á nýtingu jarðvarma geti orðið þáttur í einhverskonar samfélagssáttmála um náttúru- og umhverfisvernd."

Umræða síðustu daga um brennisteinsvetnismengun frá jarðvarmavirkjunum bendir til þess að aukin áhersla á jarðvarmann verði ekki liður í umræddum sáttmála. Auk þess hefur nú þegar verið borað í níu af nítján háhitasvæðum sem eru tæknilega vinnanleg hér á landi. Þannig að ef einhvers konar jafnvægi á að ríkja milli orkuvinnslu og náttúruverndar þá verður varla farið inn á fleiri háhitasvæði. Og ef að Styrmir ætlar að vera sannur í trú sinni á gagnsæja stjórnsýslu og beint lýðræði þá hlýtur hann að hafa skilning á andstöðu við frekari virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Hann þarf ekki að hafa mikið fyrir því að finna fullt af ástæðum fyrir andstöðunni. Mín tillaga að sátt um framtíð þessara virkjana er að efnt verði til atkvæðagreiðslu um þær í sveitarfélaginu og meðal þjóðarinnar allrar. Tillögurnar skoðist svo samþykktar ef meirihluti reynist fyrir þeim í báðum atkvæðagreiðslunum. Þannig fær þjóðin að ráða um leið og tryggt er að virkjanirnar verði ekki reistar í andstöðu við heimamenn við Þjórsá.

Grein Styrmis er gott og vel þegið innlegg í umræðuna um samfélagssáttmála um náttúruvernd. En greinin er ekki síður vitnisburður um græna taug í Sjálfstæðisflokknum sem forysta flokksins hefur löngum gefið lítinn gaum.