17. maí 2011

Ný virkjun við Gráuhnúka: Loftmengun og ósjálfbær nýting

Orkuveita Reykjavíkur ætlar að hefja jarðhitanýtingu við Gráuhnúka, skammt frá Þrengslavegi, vegna þess að borholur, m.a. við Skarðsmýrarfjall, hafa ekki skilað þeirri orku sem fyrirtækið vonaðist til. Gráuhnúkar eru utan þess svæðis sem upphaflega var skilgreint sem virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar og því hefur nýtt matsferli verið sett af stað. Nokkrar mikilvægar spurningar hafa nú þegar vaknað.

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur gert athugsemd við áætlanir Orkuveitunnar. Í fundargerð nefndarinnar frá 2. maí segir meðal annars að frummatsskýrsla fyrirtækisins sé ófullnægjandi í ýmsum atriðum og í öðrum atriðum sé minna gert úr umhverfisáhrifum en efni standi til. Nefndin mótmælir þeirri niðurstöðu frummatsskýrslunnar að jarðhitanýting við Gráuhnúka hafi engin áhrif á loftgæði og hún segir ekki hægt að fallast á að loftmengun frá jarðhitavirkjunum verði til frambúðar við og yfir heilsuverndarmörkum í íbúðar- eða frístundabyggðum í Kópavogi.

Nefndin vekur einnig athygli á merkilegri fullyrðingu um loftmengun í matsskýrslu frá 2005 vegna stækkunar Hellisheiðarvirkjunar. Þar segir fátt um loftmengun, en þó þetta á bls. 78: ,,Við ákveðnar aðstæður má búast við að brennisteinslykt finnist á virkjanasvæðinu." Frá því að þetta var fullyrt hefur rækilega komið í ljós að brennisteinslyktin berst miklu lengri leið, alla leið til höfuðborgarsvæðisins við ákveðin skilyrði, og hefur mögulega neikvæð áhrif á heilsu fjölda fólks. Heilbrigðisnefndin vekur athygli á að fullyrðingin frá 2005 hafi byggt á ótraustum grunni og vanreifun. Nýja skýrslan um Gráuhnúka byggi á þessum sömu forsendum þótt reynslan hafi sýnt að þær standist ekki. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig Skipulagsstofnun og Orkuveita Reykjavíkur, undir stjórn Besta flokks og Samfylkingar, bregðast við þessum athugasemdum heilbrigðisnefndarinnar.

Það er fleira sem vekur athygli við lestur frummatsskýrslunnar, sér í lagi umfjöllun um vinnslusögu Hellisheiðavirkjunar og sjálfbæra nýtingu jarðhitans. Á bls. 32 segir: ,,Ekki er hægt að meta nema mjög gróflega sjálfbæra afkastagetu jarðhitakerfa, sem ekki hafa enn verið nýtt. Meta má vinnslugetu út frá fyrirliggjandi gögnum um innri gerð og eðli kerfanna. Eftir að vinnsla hefst eru einnig nýttar upplýsingar um viðbrögð jarðhitakerfa við vinnslunni. Slíkar áætlanir verða áreiðanlegri eftir því sem vinnslusaga viðkomandi jarðhitakerfis lengist." Þetta er einmitt vandinn í tengslum við áætlanir um álver í Helguvík, þ.e.a.s. magn orku frá fyrirhuguðum jarðvarmavirkjunum er algjörlega á huldu. Landsvirkjun hefur viðurkennt þetta og leitar eftir minni orkukaupendum fyrir norðan. Nú verða Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka að gera hið sama og horfast í augu við það að stóriðja eins og álver getur ekki stólað á orku frá jarðvarmavirkjunum.

Á bls. 33 segir: ,,Vinnslusaga Hellisheiðarvirkjunar er stutt og þekking á jarðhitakerfinu ekki nægjanleg enn til að sjálfbær vinnslugeta sé þekkt. Vegna þessa er jarðhitavinnsla á vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar skilgreind sem ágeng til skemmri tíma litið." Fyrstu borholurnar á Hellisheiðarsvæðinu voru blástursprófaðar árið 2002 og raforkuvinnsla hófst 2006. Þarna hefur því verið borað í níu ár en samt er þekking á jarðhitakerfinu ekki nægjanlega mikil til að hægt sé að fullyrða um afkastagetu þess. Þetta undirstrikar enn frekar hversu erfitt er að vinna orku úr jarðhita og þá óvissu sem einkennir jarðhitavirkjanir. Það hefur því ekkert upp á sig að heimta meiri orku upp úr jörðinni eins og stóriðjusinnum er tamt að gera.

Á bls. 40 segir svo: ,,Í ljósi reikninga úr hermilíkani er metið að áhrif á orkuforðann af 303 MWe framleiðslu á rafmagni í Hellisheiðarvirkjun verði nokkuð neikvæð miðað við 30 ára spátímabil. Þrýstingur og berghiti lækka töluvert á svæðinu á vinnslutímanum. Ef vinnslu yrði hætt er talið að þrýstingur á svæðinu jafni sig að mestu á 50 árum og nær algjörlega á 100 árum. Það tekur hitann hins vegar yfir 1000 ár að jafna sig til fulls. Áhrifin eru afturkræf til lengri tíma litið. Samkvæmt spám má gera ráð fyrir að eftir árið 2040 verði orðið erfitt að halda óbreyttri vinnslu áfram, hvíla þurfi svæðið eða draga úr vinnslu." Miðað við þetta má gera ráð fyrir að svæðið verði nýtt til fulls í tæp þrjátíu ár áður en draga verður úr orkuframleiðslunni. Slíka orkunýtingu er varla hægt að flokka sem sjálfbæra.