21. maí 2011

Framsóknarmenn vilja ,,bara eitthvað annað" í atvinnumálum

Ég las viðtal við Valgerði Sverrisdóttur í DV í dag sem er stútfullt af dæmum um það versta í íslenskum stjórnmálakúltúr. Hún lýsir til dæmis Draumalandinu sem fölsun og segir svo: ,,Það er ekkert grín að þetta skuli vera leyfilegt. Þetta á að vera heimildamynd en er bara áróðursmynd. Mér finnst að það þurfi að vera einhverjar reglur, það megi ekki kalla hvað sem er heimildamynd." Valgerður nýtir ekki tækifærið í þessu langa viðtali til að leiðrétta meintar rangfærslur og falsanir, hún fullyrðir bara að myndin hafi haft vafasaman tilgang. Reyndar svo vafasaman að það kalli á sérstaka lagasetningu. Þetta er dæmi um það hvernig íslenskir stjórnmálamenn hafa komist upp með að taka ekki þátt í málefnalegri umræðu en einblína þess í stað á að grafa undan trúverðugleika gagnrýnenda sinna.

Annað dæmi um óvandaðan kúltúr stjórnmálanna eins og þau hafa verið stunduð: ,,Við framsóknarmenn áttum í mikilli umræðu við vinstri græna þegar við vorum í ríkisstjórn. Þá var mikið talað um að þeirra stefna væri ,,bara eitthvað annað". Við notuðum þetta orðalag mikið. Þetta var dálítið sniðugt og Steingrímur hélt að við hefðum látið hanna þetta á einhverri auglýsingastofu. En það var ekki svo flókið, þetta var bara eitthvað sem kom upp á þingflokksfundi hjá okkur," segir hún og hlær." Ég fékk aulahroll þegar þangað var komið í viðtalinu. Þarna var fullorðin kona sem var þingmaður og ráðherra um langt skeið að monta sig af því hversu klókir þingmenn Framsóknarflokksins voru í að hvetja til ómálefnalegrar og villandi þjóðfélagsumræðu.

En sá hlær best sem síðast hlær. Í dag lagði þingflokkur Framsóknarflokksins fram tillögu til þingsályktunar um sókn í atvinnumálum sem mér sýnist í fljótu bragði að byggi að miklu leyti á því sem framsóknarmenn hafa hingað til kallað ,,bara eitthvað annað". Batnandi framsóknarmönnum er best að lifa.